Færsluflokkur: Dægurmál

California Dreamin'

Hef aðeins dottið úr sambandi við netheima undanfarið, sem er gott því ég sé að ég er ekki háður þessari veröld eins og ég var farinn að óttast.

Mér finnst skrítið að enginn skuli skrifa um opinbera för 4 þingmanna til Kalifornæei. Opinber för þýðir að við skattgreiðendur berum kostnaðinn. Þingmennirnir 4 held ég séu enn ytra, verða að mér skilst í 14 daga för. Ég nenni ekki að reikna út kostnað, flug, gistingu, dagpeninga, risnu etc, en eitthvað segir mér að í þeim efnum verði ekki skorið við nögl.

Þarna er á ferðinni fríður flokkur fólks sem er á leið af þingi og mun ekki starfa þar í bráð. Hins vegar þótti Alþingi íslendinga bráða nauðsyn bera til að senda þennan mannskap vestur um haf til að fara í nokkur partí.

Það dregur ekki úr glæsileik sendinefndarinnar að með í för er eiginmaður forseta Alþingis. Bandaríkjamenn munu án efa hlýða með andakt ef hann flytur erindið "How To Succeed In Monopoly Capatalism In Modern Iceland Without Really Trying"


Fúlt aprílgabb?..

Ef þetta er aprílgabb mbl.is, þá er það með því loftkenndara og fúlara sem hefur sést í fjölmiðli seinni árin...

Hins vegar er gagnvirka vefvarpsbloggfréttin (!) frekar grunsamleg og líklegri sem aprílgabb, enda tilgangurinn með þessu gabbi að láta menn hlaupa apríl, taka þátt í einhverri vitleysu og láta fífla sig með e-m hætti.

Eða er gabbið fréttin um kosningaúrslitin í Habenfiord?...


mbl.is Sekt vegna vindgangs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Billiards and composition

Nú er ég búinn að vera í nokkurrin pásu frá blogginu, en ætla að sinna þessu betur núna. Sá að Howser vinur minn skammaði mig fyrir bíóferðir, en staðreyndin er sú að ég hef að mestu notað frítímann í billiard og lagasmíðar.

Billiard er heillandi spil sem getur tekið mann föstum tökum. Þegar mann dreymir kúlur og sérkennilega snúninga þá er maður sennilega nokkuð langt leiddur. Mest hef ég spilað svokallað Eight Ball, en hef mestan áhuga á Snooker sem er drottning allra kúluspila í veröldinni. Hins vegar er mér til efs að ég muni nokkurn tíma ná einhverjum árangri í þeim leik.

Lagasmíðar eru líka skemmtilegar þrautir að leysa, etv ekki rétt að kalla þær þraut, en það verður þó að eiga sér einhver samræða milli rökhugsunar og sköpunar stað til að lagið verði eitthvað interessant. Ég hef líka hlustað mikið að undanförnu á nýja tónlist til að átta mig á stefnum og straumum. Verð að segja að ég er ekki neitt yfir mig hrifinn af því sem ég hef heyrt, eins og oftast áður er einhvers konar endurvinnsla í gangi, bara með mismunandi sándi og "attitjúdi".

Nú hefur verið mikið um Færeyska tónlist, bæði í útvarpi og í tónleikasölum borgarinnar. Mikið óskaplega er þetta blóðlaust, nokkurs konar akústískt betrekk fyrir prozak neytendur. Teitur, sem er þekktastur Færeyinga, er nokkuð góður, en þetta er voðaleg kertaljósamussurauðvínsmúsík. Hann flytur tam náttúrulausustu útgáfu sem ég hef heyrt af "Great Balls Of Fire". Á sennilega að vera artí en verður bara skrítið. Teitur yrkir hins vegar fallega á ensku, nokkuð sem starfsbræður hans íslenzkir hafa alls ekki á valdi sínu.

Eivor hefur fallega rödd og mikla tækni, en ég trúi varla einu einasta orði sem hún syngur, þetta er allt eins og með miklu flúri. Af hverju syngur hún ekki bara lagið eins og það er? Af hverju allt þetta skraut? Það er ekkert gaman að éta marenguetertu í öllum kaffitímum.

Nú verð ég eflaust skammaður fyrir neikvæðni, en málið er að þetta heillar mig ekki. Hins vegar varð ég nokkuð hrifinn af plötunni hennar Ólafar Arnalds. Krúttkynslóðin á þar sinn bezta fultrúa, tónlistin er, þrátt fyrir hæga og látlausa áferð, spennandi. Röddin er afar sérstök en ég trúi því sem hún segir og ljóðin hennar eru ferðalag um undraheima.

Meira síðar, er farinn til að kompónera einhvern brilljans við púlborðið...


Bíó

venus 

Sá kvikmyndina Venus um daginn. Þvílíkur snilldarleikur hjá O'Toole, algert brill, möst sí einsog krakkarnir segja.

 Valið stóð á milli 300 og Venusar, en eftir að hafa lesið krítíkina um 300 í The Guardian þá held ég að ég hafi valið rétt.

 Hins vegar ætla ég að sjá 300 á næstunni.


Hlustunareintök?....

.... eru ekki öll hljóðrit hlustunareintök?
mbl.is Volta spiluð í fyrsta sinn á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei betra

Ég og mitt fólk höfum fylgzt með Gettu betur nánast frá upphafi. Oft hefur verið gaman en aldrei eins og nú. Þetta teymi, Sigmar og Davíð Þór er það bezta sem ég hef heyrt og séð í keppninni til þessa. Fínar spurningar, öruggur flutningur án tilgerðar. Skemmtilegar athugasemdir frá stjórnendum, án beturvitrungarstælanna sem því miður hafa allt of oft litað keppnina.

Ég keppi heima í stofu og var í öðru sæti í gærkvöldi. Veiki punkturinn hjá mér eru hraðaspurningarnar, snerpan er ekki sem hún var, adrenalínflæðið yrði líka annað ef maður væri í spennunni í sjónvarpssal í beinni.... ;)

Maður hlakkar til næstu þátta, þetta verður flott í ár.


mbl.is MH lagði ME í Gettu betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Juarez

Nú nýverið var hér kona frá Mexikó að reyna að vekja athygli okkar á óhugnanlegu ástandi í borginni Juarez. Þar hafa fleiri hundruð konur verið myrtar, enn fleiri nauðgað. Þegar hún var spurð hvers vegna þetta ástand væri, svaraði hún óljóst eitthvað um mafíu og aðra vonda menn.

Þar létu okkar fréttamenn við sitja. Könnuðu ekki málið og misstu strax áhugann. Mér fannst þetta hins vegar óhugnanlegt og forvitnilegt. Af hverju skapaðist þetta ástandi í þessari fjórðu stærstu borg Mexikó á tiltölulega skömmum tíma?

Juarez liggur rétt sunnan við landamærin við Bandaríkin. Borgin var alræmd áður fyrr vegna þess að þar var hægt að fá hjónaskilnað á einum degi. Þangað fóru bandaríkjamenn sem vildu kvikk fix í þeim efnum. Þessum skilnaðarbransa fylgdi jaðarstarfsemi eins og vændi og eiturlyf.

1. janúar 1994 tók gildi North American Free Trade Agreement (NAFTA). Þetta þýddi frjálst flæði verzlunar og viðskipta milli Kanada, BRA og Mexikó. Þetta varð til þess að verksmiðjur í eigu bandaríkjamanna spruttu upp eins og gorkúlur í Juarez þar sem vinnuafl var ódýrast á NAFTA svæðinu. Ungar konur á aldrinum 17 - 25 flykktust til borgarinnar í leit að vinnu.

Þarna voru þær ótryggar, fjarri fjölskyldu og vinum í borg sem þekkti alla lesti. Það fór strax að bera á misnotkun á þessum ungu konum, nauðganir og ofbeldi. Síðan morð.

Það sem er hvað óhugnanlegast við þessi morð er hinn algeri skepnuskapur, líkin finnast sundurtætt á víðavangi, stundum ekki hægt að bera kennsl á þau. Bandaríkjamenn hafa alltaf neitað að bera nokkra ábyrgð á ástandinu, þeir eru bara í bissness, eiga sínar verksmiðjur sem eru reknar samkvæmt NAFTA samningnum.

Þessar ungu konur eru myrtar fyrir $55 sem þær fá í laun á viku í verksmiðjunum. Þær eru myrtar vegna þess að þær eru konur. Langflest líkin eru af grönnum, laglegum konum. Þær eru valdar út, nauðgað, rændar og svo myrtar.

Spillingin á sér djúpar og gamlar rætur í Juarez. Það hefðu menn átt að vita þegar þeir hófu að reisa þar verksmiðjur í óðaönn uppúr 1994. En græðgin er blind á þjáningar mannanna, gömul saga og ný.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að konurnar hafa risið upp gegn þessu ástandi og heimta nú réttlæti. Sú barátta er að skila þeim nokkrum árangri. HIngað til hefur enginn viljað af þessu vita, en nú hefur konunum tekizt að ná athygli, sérstaklega í BRA. Fjölmiðlar og mannréttindasamtök þar í landi hafa tekið málið að sér og þrýsta nú á stjórnvöld um úrbætur og réttlæti. Framundan eru kosningar í BRA, það mun eflaust þykja aðlaðandi fyrir frambjóðendur að taka að sér þetta mál, sérstaklega í suðvestur ríkjunum.


eldhúsdagur

Ég hef alltaf tamið mér að tala við börn eins og viti bornar manneskjur. Ég breyti ekki um tón eða hljóðfall, nota eðlilegt beygingarkerfi íslenzkunnar, ekki bara nefnifall og nútíð. Þetta snarvirkar. Manneskjan er næmust á bernskuskeiðinu.

Ég reyni að forðast að spjalla við þau um flókna bíbopskala, æxlunarferli lindýra eða muninn á 442 og 433. Og alls ekki slúður úr heimi fullorðinna. Ég bara kann það ekki. En allt annað er hægt að ræða við börn á venjulegri íslenzku.

Mér leið hins vegar eins og barni sem er talað niður til þegar ég kveikti óvart á sjónvarpinu í gærkvöld, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar voru að tala til þjóðarinnar um helztu pólitísku ágreiningsmálin núna fyrir komandi kosningar. Hvað er að? Af hverju kemur þetta fólk svona fram við okkur? Hvers vegna breytast þingmenn í væmnar "kerlingar" sem tala "barnamál" þegar þeir þurfa að kommúnikera við kjósendur?

Það er eins og það hafi gersamlega farið fram hjá þeim að virðing okkar hefur dvínað hratt fyrir þingmönnum. Maður sér þetta fólk aldrei rökræða mál, maður sér það aldrei nema í einhverri spælingakeppni í sjónvarpi af og til. Þegar þingmenn voru spurðir um ástæðu minnkandi virðingar þá kenndi stjórnin andstöðunni um og vice versa. Síðan kemur þetta lið og talar til manns einsog geríatrísk frænka sem hittir mann bara á stórafmælum fyrir skyldurækni.

Ég verð æ hrifnari af hugmynd sem ég heyrði af fyrir löngu sem gengur útá að afnema flokkakerfið og kosningar. Þingmannsstarfið verði gert að þegnskylduvinnu, nöfn manna dregin af handahófi úr þjóðskrá og þeim gert að setja þjóðinni lög í 4 ár í senn. Það getur andskotann ekki verið verra system að það sem við búum við núna.


lambakjöt

Frá því að ég man eftir mér hefur verið tönglazt á því að íslenzkt lambakjöt sé það bezta í heiminum. Það var bara ekki spurning, íslenzkt lambakjöt það bezta og furðulegt að útlendingar skyldu ekki fatta þessa augljósu staðreynd.

Þessi heilaspuni hefur verið notaður sem réttlæting á ótrúlegum fjáraustri í sauðfjárbændur, nú á að setja hátt í 20 milljarða á nokkrum árum í rollubúskapinn. Og það segir enginn orð, aðeins muldrað eitthvað útí horni á svona síðum eins og þessari.

Þessi lygi með íslenzka lambakjötið er ótrúlega lífsseig, seigari en lygin um íslenzka vatnið, fallegustu konurnar etc.

Eftir að ég stálpaðist og fór að ferðast útí heim þá gerði ég mér far um að bragði lambakjöt í hinum ýmsu löndum, Ítalíu, Grikklandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja Sjálandi og viti menn, lambakjöt er bara lambakjöt, hvar svo sem í heiminum sem það er. Bara mismunandi matreiðsla og þar erum við ekki framarlega.

Það er eitthvað svo trist þegar er verið að reyna að halda í svona asnalega mýtu um bezta lambakjötið. Enn verra þegar teknir eru tugmilljarðar úr sameiginlegum sjóði landsmanna til að halda þessari mýtu á lofti. Skrítið að enginn skuli vilja kaupa þetta bezta lambakjöt í heimi.

Staðreyndin er sú að sauðfé þrífst bezt á harðbýlu landi, jaðarsvæðum og er þess vegna ekki ræktað af sama offorsi og nautgripir eða svín.

Sauðfé gengur alls staðar sjálfala í heiminum nema hér. Hér eru byggðar miklar byggingar til að hýsa féð að vetri og kostnaðurinn er miklu meiri hér en annars staðar.

Það væri hagkvæmara að flytja inn lambakjöt frá Nýja Sjálandi, frá andfætlingum vorum frekar en að framleiða það hér. Setjum sauðfé á safn og hættum þessari blekkingu og vitleysu.


framsókn í yfirliði

Merkilegt hvað þeir verða blóðlitlir framsóknarráðherrarnir þegar líður að kosningum. Ingibjörg Pálma féll síðast, núna Magnús Stefánsson. Hvaða trix er þetta?

Í fréttum var sagt frá því að 2 sjúkrabílar hefðu farið til Alþingis vegna yfirliðs ráðherrans. Er framsóknarráðherra svo mikill þungavigtarmaður að það dugar ekki 1 sjúkrabíll eins og fyrir okkur hin?

Verður ekki einfaldlega að fá sérstaklega styrktan þungaviktarframsóknarsjúkrabílshnjaskvagn til taks við Alþingi til að tryggja öryggi þessarar fágætu tegundar mannkyns?

Hér kemur önnur og miklu betri hugmynd: Eftir að Davíð fór á spítalann á sínum tíma var snimmendis tekin ákvörðun um að byggja heilt hátæknisjúkrahús fyrir grilljónir án þess að spyrja heilbirigðissérfræðinga.

Nú er ekki eftir neinu að bíða, það verður að hafa annexíu frá hátæknispítalanum í sérstakri viðbyggingu við Alþingishúsið með þyrlupalli og alle græs. Strax.


mbl.is Ráðherra varð að gera hlé á ræðu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband