Dans


Næstum heiður himinn þennann laugardagsmorgun og óvenju kyrrlátt hér við Laugaveginn. Eina sem heyrist er hljómurinn í klukkum Hallgríms sáluga á Skólavörðuholtinu. Sálmaskáldið passar tímann fyrir mig.

Ég verð á dansskónum í kvöld þegar úbartið heldur árshátíð. Það á reyndar eftir að pressa buxur sem einhverra hluta hefur verið eitt af því sem ég hef aldrei náð tökum á, verð að finna einhverja leið til að fá einhvern annan til að sjá um það.

Annað sem ég hef aldrei lært er að dansa. Ég hef hins vegar varið drjúgum tíma í að horfa annað fólk dansa og það er oft anzi skemmtilegt. Maður getur lesið ýmislegt í persónugerð fólks eftir því hvernig það dansar. Það verður ekki auðveldlega logið í dansi. Mamma kenndi mér pons í gömlu dönsunum sem hún hafði yndi af, vals, enskan vals, ræl, skóttís, marzúrka, polka etc, en þau spor eru nú öll týnd. Ég verð að treysta á partnerinn í kvöld sem ég veit af reynzlu að hefur fínan skilning og menntun í dansi.

Mér áskotnuðust þessir líka flottu krókódíladansskór á dögunum sem ég ætla að bursta og fægja þangað til að hægt verður á spegla sig í þeim. Þeir verða líka að vera fínir því þegar fólk furðar sig á þessum flækjufæti á gólfinu þá getur það alla vega dáðst að skónum.

Nú er HP búinn að slá hálftólf signalið og kominn tími til að plotta eitthvað plan með brækurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband