Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Juarez

Nú nýverið var hér kona frá Mexikó að reyna að vekja athygli okkar á óhugnanlegu ástandi í borginni Juarez. Þar hafa fleiri hundruð konur verið myrtar, enn fleiri nauðgað. Þegar hún var spurð hvers vegna þetta ástand væri, svaraði hún óljóst eitthvað um mafíu og aðra vonda menn.

Þar létu okkar fréttamenn við sitja. Könnuðu ekki málið og misstu strax áhugann. Mér fannst þetta hins vegar óhugnanlegt og forvitnilegt. Af hverju skapaðist þetta ástandi í þessari fjórðu stærstu borg Mexikó á tiltölulega skömmum tíma?

Juarez liggur rétt sunnan við landamærin við Bandaríkin. Borgin var alræmd áður fyrr vegna þess að þar var hægt að fá hjónaskilnað á einum degi. Þangað fóru bandaríkjamenn sem vildu kvikk fix í þeim efnum. Þessum skilnaðarbransa fylgdi jaðarstarfsemi eins og vændi og eiturlyf.

1. janúar 1994 tók gildi North American Free Trade Agreement (NAFTA). Þetta þýddi frjálst flæði verzlunar og viðskipta milli Kanada, BRA og Mexikó. Þetta varð til þess að verksmiðjur í eigu bandaríkjamanna spruttu upp eins og gorkúlur í Juarez þar sem vinnuafl var ódýrast á NAFTA svæðinu. Ungar konur á aldrinum 17 - 25 flykktust til borgarinnar í leit að vinnu.

Þarna voru þær ótryggar, fjarri fjölskyldu og vinum í borg sem þekkti alla lesti. Það fór strax að bera á misnotkun á þessum ungu konum, nauðganir og ofbeldi. Síðan morð.

Það sem er hvað óhugnanlegast við þessi morð er hinn algeri skepnuskapur, líkin finnast sundurtætt á víðavangi, stundum ekki hægt að bera kennsl á þau. Bandaríkjamenn hafa alltaf neitað að bera nokkra ábyrgð á ástandinu, þeir eru bara í bissness, eiga sínar verksmiðjur sem eru reknar samkvæmt NAFTA samningnum.

Þessar ungu konur eru myrtar fyrir $55 sem þær fá í laun á viku í verksmiðjunum. Þær eru myrtar vegna þess að þær eru konur. Langflest líkin eru af grönnum, laglegum konum. Þær eru valdar út, nauðgað, rændar og svo myrtar.

Spillingin á sér djúpar og gamlar rætur í Juarez. Það hefðu menn átt að vita þegar þeir hófu að reisa þar verksmiðjur í óðaönn uppúr 1994. En græðgin er blind á þjáningar mannanna, gömul saga og ný.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að konurnar hafa risið upp gegn þessu ástandi og heimta nú réttlæti. Sú barátta er að skila þeim nokkrum árangri. HIngað til hefur enginn viljað af þessu vita, en nú hefur konunum tekizt að ná athygli, sérstaklega í BRA. Fjölmiðlar og mannréttindasamtök þar í landi hafa tekið málið að sér og þrýsta nú á stjórnvöld um úrbætur og réttlæti. Framundan eru kosningar í BRA, það mun eflaust þykja aðlaðandi fyrir frambjóðendur að taka að sér þetta mál, sérstaklega í suðvestur ríkjunum.


kosningablús

Það er sama hvað ég reyni, mér tekst ekki að koma mér í einhvern ham fyrir væntanlegar kosningar. Ég reyni að finna einhver prinsípatriði sem skiptu mig einhverju sinni máli, en þau hafa fölnað og máðst.

Kannski er það ég sem hef fölnað og daprast, alla vega hef ég ekki nærri því eins gaman af því að takast á við menn um pólitík og ég hafði.

Stundum getur þó fokið í mann, en það er fljótt úr mér og mér finnst oftar sem Prédikarinn hafi rétt fyrir sér; allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Það er vissulega mjög dífítísk afstaða og ekkert sérlega hönnuð til að auka manni bjarstýni á komandi tíma eða lífið yfirhöfuð, en svona er nú tilfinningin á útmánuðum rétt fyrir jafndægur á vori.

April is the cruellest month sagði TS Eliot og vissi sennilega ekkert hvað það var satt í íslenzkum raunveruleika í gegnum aldirnar. Vont veður og enginn matur þó heita ætti að sumar kæmi seinni partinn í apríl á Íslandi. Og ekkert vissi hann um íslenzka pólitík sem verður alltaf hvað vitlausust í apríl.

Auðlindaákvæðið sem fara átti inní stjórnarskrá var ekkert annað en skrípó. Það er bara hægt að brosa og fara svo að vaska upp. Eða sofa.

Það eru aðrar kosningar sem ég hef miklu meiri áhuga á og það eru forsetakosningarnar í BRA (USA). Það er alvöru teater þar sem allt er í húfi, ekki bara vegaspottar og rollur.

Það má samt sem áður skemmta sér yfir íslenzkri pólitík, persónur og leikendur eru þannig týpur þótt sviðið sé lítið og þröngt.

Þegar líða tekur að 12. maí þá ætla ég að vera í góðu skapi og láta kosningarnar skemmta mér, eins mikið og hægt er. Alveg eins og ég hef gert þegar Júróvisjón brestur á; maður hlustar ekki á músikina en hefur gaman af statístíkinni að henni lokinni.


eldhúsdagur

Ég hef alltaf tamið mér að tala við börn eins og viti bornar manneskjur. Ég breyti ekki um tón eða hljóðfall, nota eðlilegt beygingarkerfi íslenzkunnar, ekki bara nefnifall og nútíð. Þetta snarvirkar. Manneskjan er næmust á bernskuskeiðinu.

Ég reyni að forðast að spjalla við þau um flókna bíbopskala, æxlunarferli lindýra eða muninn á 442 og 433. Og alls ekki slúður úr heimi fullorðinna. Ég bara kann það ekki. En allt annað er hægt að ræða við börn á venjulegri íslenzku.

Mér leið hins vegar eins og barni sem er talað niður til þegar ég kveikti óvart á sjónvarpinu í gærkvöld, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar voru að tala til þjóðarinnar um helztu pólitísku ágreiningsmálin núna fyrir komandi kosningar. Hvað er að? Af hverju kemur þetta fólk svona fram við okkur? Hvers vegna breytast þingmenn í væmnar "kerlingar" sem tala "barnamál" þegar þeir þurfa að kommúnikera við kjósendur?

Það er eins og það hafi gersamlega farið fram hjá þeim að virðing okkar hefur dvínað hratt fyrir þingmönnum. Maður sér þetta fólk aldrei rökræða mál, maður sér það aldrei nema í einhverri spælingakeppni í sjónvarpi af og til. Þegar þingmenn voru spurðir um ástæðu minnkandi virðingar þá kenndi stjórnin andstöðunni um og vice versa. Síðan kemur þetta lið og talar til manns einsog geríatrísk frænka sem hittir mann bara á stórafmælum fyrir skyldurækni.

Ég verð æ hrifnari af hugmynd sem ég heyrði af fyrir löngu sem gengur útá að afnema flokkakerfið og kosningar. Þingmannsstarfið verði gert að þegnskylduvinnu, nöfn manna dregin af handahófi úr þjóðskrá og þeim gert að setja þjóðinni lög í 4 ár í senn. Það getur andskotann ekki verið verra system að það sem við búum við núna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband