Færsluflokkur: Spil og leikir

Billiards and composition

Nú er ég búinn að vera í nokkurrin pásu frá blogginu, en ætla að sinna þessu betur núna. Sá að Howser vinur minn skammaði mig fyrir bíóferðir, en staðreyndin er sú að ég hef að mestu notað frítímann í billiard og lagasmíðar.

Billiard er heillandi spil sem getur tekið mann föstum tökum. Þegar mann dreymir kúlur og sérkennilega snúninga þá er maður sennilega nokkuð langt leiddur. Mest hef ég spilað svokallað Eight Ball, en hef mestan áhuga á Snooker sem er drottning allra kúluspila í veröldinni. Hins vegar er mér til efs að ég muni nokkurn tíma ná einhverjum árangri í þeim leik.

Lagasmíðar eru líka skemmtilegar þrautir að leysa, etv ekki rétt að kalla þær þraut, en það verður þó að eiga sér einhver samræða milli rökhugsunar og sköpunar stað til að lagið verði eitthvað interessant. Ég hef líka hlustað mikið að undanförnu á nýja tónlist til að átta mig á stefnum og straumum. Verð að segja að ég er ekki neitt yfir mig hrifinn af því sem ég hef heyrt, eins og oftast áður er einhvers konar endurvinnsla í gangi, bara með mismunandi sándi og "attitjúdi".

Nú hefur verið mikið um Færeyska tónlist, bæði í útvarpi og í tónleikasölum borgarinnar. Mikið óskaplega er þetta blóðlaust, nokkurs konar akústískt betrekk fyrir prozak neytendur. Teitur, sem er þekktastur Færeyinga, er nokkuð góður, en þetta er voðaleg kertaljósamussurauðvínsmúsík. Hann flytur tam náttúrulausustu útgáfu sem ég hef heyrt af "Great Balls Of Fire". Á sennilega að vera artí en verður bara skrítið. Teitur yrkir hins vegar fallega á ensku, nokkuð sem starfsbræður hans íslenzkir hafa alls ekki á valdi sínu.

Eivor hefur fallega rödd og mikla tækni, en ég trúi varla einu einasta orði sem hún syngur, þetta er allt eins og með miklu flúri. Af hverju syngur hún ekki bara lagið eins og það er? Af hverju allt þetta skraut? Það er ekkert gaman að éta marenguetertu í öllum kaffitímum.

Nú verð ég eflaust skammaður fyrir neikvæðni, en málið er að þetta heillar mig ekki. Hins vegar varð ég nokkuð hrifinn af plötunni hennar Ólafar Arnalds. Krúttkynslóðin á þar sinn bezta fultrúa, tónlistin er, þrátt fyrir hæga og látlausa áferð, spennandi. Röddin er afar sérstök en ég trúi því sem hún segir og ljóðin hennar eru ferðalag um undraheima.

Meira síðar, er farinn til að kompónera einhvern brilljans við púlborðið...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband