Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
The Indie Beatles
Það er liðin sú tíð að það þótti fréttnæmt að skrifað væri um íslenzka tónlistarmenn í útlenzkum fagritum. Hér áður fyrr mátti ekki birtast nafn íslenzks tónlistarmanns í héraðsfréttablaði neðanjarðarmanna í Lundúnum án þess að daginn eftir birtist langhundur um málið aftarlega í blaði allra landsmanna með tilvísun á forsíðu.
Nú eru tímarnir breyttir.
Ég keypti mér á dögunum brezkt tímarit sem heitir Mojo, þykk lesning með ítarlegri umfjöllun um allt það bjartasta, smartasta og flottasta sem er að gerast í poppinu í dag.
Þar rakst ég tam á umfjöllun um Jóhann Jóhannsson, hvers tónlist var lýst sem "glacial classical bleakness"... ehemm.. ætla mér ekki þá dul að reyna umorða þessa snilld á móðurmálið, það yrði bara klúður... "sígild jöklaauðn"?!
Þarna í tímaritinu var líka sagt frá tónleikum The Sugarcubes í Laugardaghöllinni, sem voru sagðir "The Indie Beatles". Þá var mér nokkuð dillað. Ekki það að ég viti ekki að Sykurmolarnir eru mikils virði fyrir þá sem fíluðu þá sem mest þegar þeir voru hvað frjóastir, heldur vegna einkunarinnar.
Það er vegna þess að The Beatles, The Beatles frá Liverpool eru mér töluvert mikils virði. Ég ólst upp við The Beatles og hef síðan lítið sloppið út fyrir jarðarberjaakurinn, eða eigum við að segja forsæluna í garði bleksprautunnar. Mun þaðan koma til með að dæma nýtt sem gamalt í musicam.
Eftir ég las krítíkina á "The Indie Beatles" í Mojo, datt mér ekki annað í hug en að lærðir poppsérfræðingar lýðveldisins myndu gera málinu ítarleg skil í öllum helztu fjölmiðlum; þeas þegar íslenzkri hljómsveit er líkt við Bítlana þá hlyti það að þykja meiriháttar tíðindi. En ekki orð, ekki múkk.
Svona hefur nú heimurinn verið sigraður. Heimsyfirráðin þykja ekkert merkileg, loksins þegar þeim hefur verið náð.
Ég ólst upp við bítlana og það er mín músík, ég veit líka að sú tónlist sem maður elst upp við fylgir manni alltaf. En ég hef haft vit á því að leiðast ekki útí deilur við mér yngra fólk sem fríkaði út á pönki, né heldur mér eldri mannskap sem hefur haldið yfir mér langar tölur um yfirburði jazzins. Maður kinkar bara kolli og fer svo heim og hlustar á hvaðeina sem maður er hrifinn af hverju sinni. Ég hlusta á, með sólkónginn og allan hans mannskap frá lifrarpolli uppí hillu, oní pappakössum.
Athugasemdir
Eru þú og Freysi þá "The Lavablue Volcanic Proclaimers"?
Sem minnir mig á...hvern fjandann er Freysi að pæla með þessu stönti í Kastljósi?!
Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2007 kl. 01:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.