Miðvikudagur, 15. ágúst 2007
Jón Ásgeir Sigurðsson
Sú sorgarfregn var að berast að Jón Ásgeir væri allur. Reyndar vissi ég að hann væri dauðvona, en það er alltaf harmur þegar góður vinur og samstarfsfélagi fellur frá.
Við Jón áttum skrifborð andspænis hvor öðrum hjá Útvarpinu, hann á Rás 1, ég á Rás 2. Skemmtilegri félaga vart hægt að hugsa sér. Hugmyndaríkur, menntaður, óragur og metnaðarfullur. Hann talaði nokkur tungumál reiprennandi og var að mennta sig fram á hinzta dag. Tók MBA prófið eftir sextugt og það var engann bilbug á honum að finna. Metnaður hans fyrir Útvarpið var meiri en hjá flestum ef ekki öllum öðrum. Hann var kominn í útvarpsráð og þar var loks valinn réttur maður í það starf.
Hann var stöðugur fleinn í holdi ráðamanna Útvarpsins því hann þoldi ekki pólitísku íhlutunina sem litaði alla ákvarðanatöku og mannaráðningar. Jón Ásgeir lá ekki á skoðunum sínum og lét ekki kúga sig eins og svo margir aðrir, þvert á móti skrifaði hann greinar, tók til máls alls staðar þar sem hann gat til að andmæla fúskinu og pólitíkinni. Yfirsýn hans, menntun og vald á íslenzku var frábær, við þetta bættist líka stríðni og áræði sem hafði neikvæð áhrif á blóðþrýstinginn hjá þeim sem réðu.
Hans verður saknað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.