Bandið hans Bubba

Einhverra hluta vegna hef ég séð alla þættina “Bandið hans Bubba”. Ekki vegna þess að ég ætlaði að fylgjast með þessu, það gerðist fyrir tilviljun. Hending ein hefur ráðið að ég hef setið við sjónvarpið og lent á stöð 2 þegar þessir þættir hafa verið sendir út.

Ég þekki aðeins inná svona hæfileikakeppni eftir að hafa séð nokkra þætti af Idol, Xfactor, Supernova etc., en BHB er að ég held nokkuð frábrugðið. Það er vegna þess að persóna Ásbjarnar Kristinssonar Morthens er burðarásinn í öllu verkinu, styttingin á nafni hans er í eignarfalli í heiti þáttarins.

Hann situr í þættinum sjálfur eins og keisari á leikum í Colosseum sem ræður örlögum gladiatora. Orð hans er hinn endanlegi dómur.
Bubbi er ekki bara poppstjarna, hann er poppgoð okkar íslendinga. Og honum leiðist það ekki. Hann geislar af sjálfsöryggi, hann hefur einhverja innri uppljóman og orku sem er ótrúleg, ágeng og athygliskrefjandi.

Stundum pirrandi, stundum finnst manni talandi hans nokkrum ljósárum á undan hugsun hans, maður nemur orðin en ekki alltaf þá hugsun sem býr að baki. Kannski er ég bara ekki nógu fljótur að hugsa til að fylgja honum. Fatta ekki alla tangentana sem flæði hans tekur.

Hann er að öllum líkindum bezti söngvari, lagasmiður og trúbador sem við eigum. Og eins og með pólitíkusana, þá fáum við þá trúbadora sem við eigum skilið. Það er áhugavert að heyra álit hans á einstaka frammistöðu í þættinum, innsæið er á stundum brilljant, beint að kjarnanum, en oft skil ég hreinlega ekki hvað hann er að fara. Stundum er hann beinlínis brútal og á öðrum stundum skýtur hann yfir markið í oflofi. En svo er margt sinnið sem skinnið, það sem einum finnst gott og gilt finnst öðrum helzt til villt.

Það er mjög virðingarvert að Bubbi geri þá kröfu að öll lögin skuli flutt við íslenzkan texta, það færir tónlistina nær okkur og gerir okkur betur kleift að meta frammistöðu keppenda. Það er fín hljómsveit sem sér um undirleik og það er ekkert feik í gangi í þeim efnum, eins og því miður í annarri keppni sem er nýafstaðin í Sjónvarpi allra lanzmanna. Að því leyti er BHB þátturinn klassa ofar.

Hins vegar er kepninni lokið fyrir mér, henni lauk í þriðja þætti eftir að ég heyrði í þeim sem nú keppa til úrslita. Þetta er ekki spennandi lengur, hópurinn er einfaldlega ekki nógu góður til að maður nenni að fylgjast með þessu áfram.

Þeas ég vona að ég villist ekki inná þáttinn aftur næsta föstudagskvöld… ég gæti límst við til að ráða í hugsanarokið í keisaranum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband