Sunnudagur, 2. mars 2008
Coen bræður og græðgin
Nýbúinn að sjá No Country For Old Men. Gæti skrifað mikið um myndina en sleppi því. Þegar ég fór að hugsa um þær myndir sem ég hef séð eftir þá bræður þá er eitt stef sem einkennir þær flestar ef ekki allar. Ég hef hvergi séð minnst á þetta og ætla því að koma með þá kenningu að myndir Coen bræðra snúast um græðgi. Um peninga og þá óhamingju sem af þeim getur hlotizt.
NCFOM er um ógæfu manns sem tekur tösku fulla af peningum án nokkurar umhugsunar. Það veldur honum drjúgum búksorgum sem og fjölda annarra. Tilbrigði við þetta stef er að finna í Fargo, Big Lebowski, Oh Brother Where Art Thou, The Man Who Wasn't There og fleiri myndum sem ég hef séð eftir þá bræður, en ég hef reyndar ekki séð þær allar.
Fégirndin er rót alls þess sem illt er skrifaði Páll postuli. Græðgin er ein af höfuðsyndunum sjö og verður æ meira áberandi eftir því sem tímarnir líða. Ekki satt?
Meir um þetta síðar
Athugasemdir
Ég er mikill aðdáandi mynda Coen bræðra. Sú eina sem ekki hefur höfðað til mín er Big Lebowski. Líklega þarf ég bara að sjá hana aftur til að koma auga á snilldina. Ég er búin að sjá flestar myndirnar þeirra, nema hana, oftar en einu sinni.
NCFOM fannst mér algjört listaverk. Og af því að ég hef nú mikinn áhuga á öllu sem tengist tónlist þá fannst mér sá þáttur í myndinni algjör snilld. Mættu sumir íslenskir kvikmyndagerðarmenn taka sér þá bræður til fyrirmyndar. Var að horfa á Kaldaljós í sjónvarpinu í gær og ofnotkun á tónlist í þeirri mynd var með þvílíkum ólíkindum að það eiginlega eyðilagði alla stemmningu í senunum fyrir mér hvað eftir annað.
Eins og þú þá skynja ég þetta græðgis-stef sterkt í myndum þeirra bræðra. Þegar Ólafur H. Torfason dæmdi myndina á Rás 2 setti hann þetta stef í stærra samhengi og vildi meina að Coen bræður væru oftast að spyrja spurninga um siðferði og létu áhorfandanum eftir að svara þeim. Mér finnst mikið til í því.
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 11:41
Hér kem ég, les færsluna og vil skrifa athugasemd. Er þá ekki mín gamla vinkona búin að segja næstum allt sem ég vildi sagt hafa! Nema eitt. Í Víðsjá á Rás eitt sl. mánudag var Eiríkur með pistil - reyndar um aðra mynd, There will be blood, og komst að svipaðri niðurstöðu, þ.e. þessari með græðgina. Lék svo viðeigandi lag með George Michael á eftir pistlinum, Praying for time.
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.3.2008 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.