Mánudagur, 3. mars 2008
Eymý frá Vínhúsum
Rokk er ekki flókið fyrirbæri tónlistarlega séð, þrír, fjórir dúrhljómar og takturinn 4/4. Yrkisefnið í textunum er sex. Langoftast löngun í sex.
Það þarf anzi frumlegt fólk til að búa til eitthvað úr þessum simpla efnivið til að segja manni eitthvað sem kemur á óvart. Það er búið að margþvæla þessu einfalda stefi með þeim hætti að maður er hættur að hlusta eftir textanum, slær taktinn með tánum einsog Pavlov hundur. Pavlov rokkhundur.
Einstöku sinnum gerist þó undrið, maður heyrir inní þessu viðtekna nýjan tón, nýja tilfinningu sem túlkar eitthvað sem maður vissi, en hafði ekki fundið áður.
Amy Winehouse kom til mín í umslagi frá Bretlandi og ég setti hana í bunkann "Hlusta Seinna". Sem er í raun síðasta stoppistöð fyrir ruslakörfuna. Þetta var "sampler", sýnishorn af plötunni Frank. Myndin á umslaginu bjargaði samplernum frá Sorpu. Diskurinn fór í spilarann og hefur verið nálægt honum síðan.
Amy syngur eins og Sarah Vaughan. Ekki eins að sjálfsögðu, hún er ekki ljósrit, en hún hefur drukkið úr sömu lind og Sarah, Billie, Nina og Edith. Amy er mildasti geislinn og sárasti skugginn eins og hinar stelpurnar þegar hún syngur.
Ekki nóg með það, tvítug stúlka á ekki að semja svona lög og svona texta. Hún er of ung. Svona semur enginn nema hann hafi lent í miklu ástarævintýri og mikilli hjartasorg. Rehab er lag sem er vitnað í þegar menn nánast hlakka yfir óförum hennar. En textinn er um afneitun og beiðni um hjálp. Það virðist hafa farið fram hjá flestum.
Það er dapurlegt að sjá hvernig fyrir henni er komið núna, hræðilegt að sjá og lesa það sem fjölmiðlaskríllinn ber á borð fyrir okkur um harmleik hennar. Ég veit ekki hvaða demónar eru spila í þessari konu, en vona svo heitt og innilega að hún nái taumhaldi á þeim og geti ort, samið og sungið um langa hríð því hún er sá tónlistarmaður sem ber af eins og gull af eir á okkar tímum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.