Þriðjudagur, 4. mars 2008
Eiríkur frá Klapptúni
Ég mun fara verði mér boðið á tónleika EC, en miða kaupi ég trauðla enda að seljast upp skv þessari frétt. Þetta verða vonandi skemmtilegir tónleikar fyrir aðdáendur hans, kveikjarar á lofti í ballöðunum, sungið með í slögurunum, stappað niður fótunum, ruggað sér í lendunum og snúið sér í hring þegar blúslíkið dunar.
Það var mikið hlustað á Cream og John Mayall's Bluesbreakers fyrir austan í den, en þeirri hlustun lauk þegar fyrsta plata Jimi Hendrix Experience fór á fóninn. Aftur heyrðist í EC þegar önnur sólóplatan kom út og þá hafði tappinn heldur betur breytt um stíl. Nú voru ekki lengur endurunnir gamlir frasar frá Albert King á boðstólum, heldur klisjur frá JJ Cale og ryþmanum stolið frá Jamaica þar Bob Marley var æðsti prestur. Þetta var skemmtileg og grúví súpa og skásta sólóplata EC til þessa, 461 Ocean Boulevard. Hann var með rosalega fína hljómsveit með sér, sennilega þá beztu sem hann hefur haft, þar sem bassaleikarinn Carl Radle var þungamiðjan. Sá drengur kunni þá eðlu kúnst að spila færri nótur en fleiri. Betur en aðrir í rokkinu á þeim tíma.
Allar plötur eftir það hafa verið frekar óspennandi sull, sjálfsvorkun og hálfgerður aumingjagangur. Eina undantekningin má segja að sé platan EC Unplugged, þar syngur hann betur en fyrr og síðar, þar vottar fyrir göfgi í sálinni. EC hefur mestan part haldið sig í notalegum skugganum af JJ Cale svona hugmyndalega séð, en JJ er frumlegur kall frá Oklahama sem getur fágað litla gimsteina nánast úr engu. Nýjasta plata EC er einmitt samstarfsverkefni með JJ, The Road To Escondido. Sá diskur fékk reyndar Grammy verðlaun í einhverri undirdeildinni.
Clapton Is God var algengt graffítí meir að segja þegar ég fór fyrst til Englands 1978. Virkaði eins og óp frá dogmatískum sértrúarhópi. Clapton var soldið töff, sérstaklega þegar hann spilaði með John Mayall. Fór útí lysergíð endaleysu með Cream og missti plottið gersamlega. Að halda því fram að hann sé bezti gítarleikari heims er bara broslegt. Það má vera að hann hafi haft mikil áhrif og orðið þess valdandi að menn fóru að stunda gítarleik, en orð eins og snillingur hvað þá guð, gengisfalla hraðar en íslenzk hlutabréf þegar þau eru tengd honum.
Miðar á Clapton að klárast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.