Hökusig aldarinnar

 

Gæðablóð hefur staðið í nokkrum landvinningum undanfarnar vikur. Þessi músíkalska útrás hefur aðallega verið uppá Akranes, hjá Ragga smið og Breiðarbónda. Raggi keypti gamla Hótelið þar voru stigin mörg djarfleg dansspor í den. Hótelið heitir Breiðin nú. Breiðarbóndinn sýndi mikinn rausnar og höfðingsskap og bauð öllum Gröndurum plús Gæðablóði í sætaferð á Skagann þar sem hann og spúsan tóku á móti mannskapnum með þvílíkum virktum að lengi verður haft í minnum og mætti segja margar sögur af öllum þeim skemmtilegheitum sem þar áttu sér stað. Þær sögur bíða betri tíma.

Gæðablóð hefur nú spilað í tvígang á Breiðinni og einhver plön eru um að festa fylgið þar með öðru giggi þegar plata hljómsveitarinnar kemur út, hvenær sem það nú verður.

Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem Gæðablóð hleypir heimdraganum til útrásar fyrir utan 101. Fyrir nokkrum misserum aðstoðaði hljómsveitin glerlistakonuna Sigrúnu Einarsdóttur við jólasölu uppí Kjós, sem var ekkert annað en kærleiksverkefni. Sömuleiðis önnur saga.

 Eftirminnilegasta útrásarverkefni Gæðablóðs verður samt að teljast þegar hljómsveitin opnaði Smurstöðina í Kópavogi. Það bar til með þeim hætti að cajun leikarinn og allsherjarreddarasnilliguttinn Hallgrímur Guðsteinsson vélstjóri hafði aðstoðað við flókna tæknilega fídusa í uppsetningu smurstöðvarinnar, sem sérhæfir í í þjónustu við ofurjeppa og tröllafarartæki ýmis konar.

Þegar skemmtinefnd Smurstöðvarinnar fundaði um skipulagningu opnunargillisins þá var Hallgrímur kallaður til vegna þekkingar sinnar og tengzla í skemmtanaiðnaðinum. Hallgrímur sagði enga reisn yfir hátíðlegri opnun stöðvarinnar án þessa að  iðka musicam andanum til unaðar. Þetta sá nefndin strax að var alveg rétt. Hallgrími var falið það verk að finna hljómsveit sem myndi hæfa atburðinum og hann sá sömuleiðis strax að Gæðablóð væri eina sveitin sem gæti stímúlerað mannskapinn við þetta tækifæri.

Það hýrnaði mjög yfir hljómsveitarmeðlimum þegar þessi tíðindi bárust í tjaldið við heimavöllinn Grand Rokk, enda höfði feitu gigginn verið sjaldgæf um þær mundir. “Tíkall á mann og nóg að bíta og brenna!” sagði vélstjórinn. Gæðablóð hafði viku til að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir konsertinn. Tíminn var notaður til skrafs og ráðagerða og fiskisagan flaug meðal Grandara sem höfðu eðlilega áhuga á þessu einstaka tækifæri hljómsveitarinnar til frama og frægðar í fjarlægu sveitarfélagi.

 Skömmu áður, en þetta sem hér er um rætt, hafði sá gleðilegi menningaratburður átt sér stað að Frú Birna gaf út ljóðabókina “Birna Þó...” Útgáfunni hafði verið fylgt eftir með ljóðaupplestri í efri salnum á heimavellinum og Gæðablóð kompónerað og flutt viðeigandi undirskor til áhrifsauka við lesturinn. Allt tókst þetta með miklum ágætum og höfðu allir sóma af.

 Þegar smurstöðvargiggið var einu sinni sem oftar rætt í smóktjaldinu, þá var eins og Frú Birna hefði orðið fyrir uppljómun og hún sagði hátt og snjallt með bjartri röddu: “Strákar, ég kem bara með!..., flyt nokkur ljóð og þá erum við búin að breyta þessu grís djónti í menningarsmurstöð!” “Neh?” Þessari hugmynd var fagnað með háværum hætti og síðan júbilerað með bravúr fram á kvöld.

Rann svo upp opnunarhátíðardagurinn bjartur og fagur. Pínulítið frost en hæglætisveður. Gæðablóð safnaðist saman á Smiðjustígnum í sínu fínasta svarta pússi. Frú Birna var rauð og svört að vanda, en hafði klæðst næstum syndsamlega stuttu leðurminipilsi fyrir konu nýkomna á sjötugsaldur, en Birna bar það auðvitað vel; leggjalöng, klassísk og yfir allan aldur hafin.

 Hún sat fram í hjá Hallgrími í bláa Súbaróinum, en afgangurinn af bandinu mismunaði sér einhvern veginn í aftursætið, með instrumentin í skottinu.

 Bíllinn rann í Kópavoginn um torræð og framandi hverfi þar til hann stöðvast fyrir utan húsalengju þar sem díversi stofnanir eru til húsa. Meðal annars gæludýrabúð, kynlífshjálpartækjaforretning, sjoppa og svo fjallajeppasmurstöðin.

 Það var bjartur og víður salur sem blasti við artistunum þegar inn var komið og menn spáðu strax í akkústík og heppilegt svið fyrir performansinn.

 Vélstjórinn sá um að allt gekk hratt og örugglega fyrir sig af áreynslulausri fágun atvinnumannsins. Þegar búið var að tengja, einntveira í mækinn og sándtékka riggið, þá fóru mennn að skoða í kring um sig. Þá kom í ljós að ekkert hafði verið skorið við nögl. Rautt og hvítt og eðalbjór til að skola niður flottustu snittum og smáréttum sem músíkantarnir höfðu séð á löngum og viðburðaríkum ferli. Þarna voru færustu vertar að verki, rennilegar servitrísur gengu um beina og allt var spikk og span. Það beinlínis stirndi á smurstöðina.

 Hátíðargestir  voru að stærstum hluta væntanlegir kúnnar Smurstöðvarinnar, vörpulegir  300 punda snáðar með bert niðrá loðnar bringur og í óreimuðum rosabullum. Kvenfólkið þeirra var frekar mjóslegið og með með fas þeirra sem þurfa að sitja lengi einar heima vegna fjarveru makans. Pleisið var pakkað.

 Gæðablóð tók Zanzíbarinn fyrst. Þetta sexí bossanóvanúmer með draumkenndum texta Mákans virkaði ekki neitt. Núll, nada. Það var eins og hljómsveitin væri ekki á staðnum. Fjallasnáðarnir og spúsur þeirra röðuðu í sig réttunum, drukku rautt og hvítt og sögðu margar sögur í einu, ráku upp miklar rokur og höfðu hátt. Fíngerð lýríkin um sorg og ástir með sniðugum súbplottum, samhúmanískum fíling og óvæntu tvisti í endann átti fyllilega erindi við gestina en þeir bara hlustuðu ekki. Eggjandi ryþminn, salsa, mazúrka, blús og jazz hafði akkúrat engin áhrif á þetta lið.

 Gæðablóð spilaði nokkur lög til viðbótar, Frænkuna, Fluguna og sitthvað fleira áður en blásið var serímóníulaust til pásu. Þetta gengur ekki rassgat, var hin almenna niðurstaða spilaranna um fyrsta settið á gigginu. Á meðan Gæðablóð spilaði hélt Frú Birna sig til hlés í kamesi verkstjórans og undibjó sinn performans, æfði nokkrar nettar pósur og tók raddæfingar.

 “Best að drífa þetta vonlausa gigg af” sagði Tómas og gekk á sviðið og kynnti Reykjavíkurskáldið frá Borgarfirði eystra. “Góðir gestir, næst á skemmtidagskránni er ljóðalestur”, þessari tilkynningu var mætt með háværu skvaldri og suði, það hlustaði ekki kjaftur. “Hin eina og sanna Birna Þórðardóttir ætlar að flytja nokkur ljóð úr nýútkominni ljóðabók sem hefur vakið mikla athygli út um gervalla miðborg Reykjavíkur og annars staðar. Gefið henni gott klapp!” Engin viðbrögð og ekkert klapp.

 Skáldið kom á réttu kjúi inná sviðið og tók sér stöðu við mækinn. “HLJÓÐ!” æpti Frú Birna gleiðfætt í minipilsinu, “HLJÓÐ!” Skvaldrið smá dó út og fólk snéri sér furðu lostið að sviðinu til að gá hver væri að trufla partíið. “HLJÓÐ! Æpti hún enn, “Það er bara gaga að lesa ljóð ef þið eruð með þennan hávaða. Þið þarna útí horni, komaso! Hættið þessum montsögum í smástund á meðan ég les!!”

 

 Það var raddblærinn sem gerði það að verkum að mannskapurinn steinþagnaði. Frú Birna kann að beita röddinni til að fá fólk til að hlýða, enda hert í áratuga sósíalískri baráttu fyrir alþýðuna.

 Þegar þögn var dottin á og athyglin óskipt á hinni sex feta háu skáldkonu, hóf hún lesturinn. “Homage a Johnny Cash” var fyrst og Gæðablóð spilaði chinka chink á meðan hún las. Hún las með meiri tilþrifum en  nokkru sinni hafa sést á nokkurri íslenzkri smurstöð og þótt víðar væri leitað. Frú Birna sleppti ekki takinu af áheyrendum og vatt sér strax í létt erótísk kvæði úr nýju bókinni, sem negldu athyglina fyrir fullt og fast. Hún átti salinn.

 Þegar kom að ljóðlínunni “Taktu mig, Taktu mig, Taktu mig” sem hún hvíslaði kisulega í mækinn, þá varð, það sem Hallgrímur vélstjóri kallaði síðar; “hökusig aldarinnar”.  Menn höfðu staðið þöglir undir lestrinum, forviða og með undrun í svipnum, en þessi ljóðlína lét höku hörkutólanna síga. Það var sjón sem enginn hafði áður séð; kollektívt hökusig fjallakarla á smurstöð undir ljóðalestri. Kvenfólkið var hins vegar harðlæst í framan. Gæðablóð áttaði sig strax á að eitthvað óvenjulegt, sögulegt og sérstakt var að gerast. Spilaði lágvært atónal grúv sem rímaði við ástarbrímkveðskapinn og hrökk í fínan gír.

 Frú Birna var með mómentið á hreinu, pósaði fínlega, ekki of djarft, aldrei gróft. Handar og höfuðhreyfingar hennar undirstrikuðu sérhverja línu, sérhvert orð og það var eins og tíminn stæði kyrr. Hreinir töfrar skáldskaparins voru algerir. Það var eins og Smurstöðin hefði breyst í ævintýrahöll þar sem munúð, unaður og sæla blönduðust og umvöfðu hugarheim hverrar sálar. Það hreinlega birti í salnum um nokkur þúsund lúx.

 Gæðablóð og Frú Birna höfðu ákveðið að lesin skyldu 3 ljóð við undirleik, en töfrarnir voru slíkir að ljóðin urðu helming fleiri. Þegar performansinum lauk þá var eins og eilífðin hefði gert vart við sig í nokkur andartök í djúpri þögn. Þá var sem liðið hefði losnað úr álögum og allt varð vitlaust í fagnaðarlátum, fólk klappaði og stappaði, gargaði og gólaði. Gleðibros og tár á hverjum vanga.

 “Drífa sig strákar!” sagði skáldkonan, “nú er ég búin að mýkja pakkið og þá er að selja nokkrar bækur á meðan það er soft”. Gítarleikarinn þurfti skyndilega á salerni að halda, en Máki og Tommi heldu í humátt eftir Frú Birnu í sölumennsku. Bókin seldist í þrem eintökum sem Gæðablóði fannst bara nokkuð gott, svona miðað við aðstæður, en Frú Birna var ekki lukkuleg með afraksturinn. “Djöfulsins nízkupúkar” var einkunin sem hún gaf hátíðargestunum við opnun Smurstöðvarinnar.

 Seinna settið rann í gegn með aðeins betri undirtektum en það fyrra að mati reyndra manna í tónleikahaldi. Kennslukonan er djarfasti texti Mákans, íslenzka fokk orðið kemur meir að segja fyrir í honum. Þetta vakti mesta lukku sem og fjöldasöngurinn í endann.

Rigginu var pakkað í hasti og Gæðablóð leyst út með helling af bjórkippum og einhverju fleiru. Biðin fyrir utan var drjúg því Frú Birna vildi ekki gefast upp í bóksölunni, þótt bæði Máki og Tommi hefðu játað sig sigraða í þeirri göfugu list. Loks var haldið af stað og farið á Grandið til að fagna fyrsta alvörugigginu utan heimavallar.

 Það verður að segja hljómsveitinni til hróss að útrás Gæðablóðs skildi ekki eftir sig sviðna jörð, öfugt við aðra útrásarvíkinga. En það verður jafnframt líka að viðurkennast að Frú Birna átti sterkasta leikinn og gerði þetta gigg eftirminnilegt. Án hennar hefði þetta verið dauft og bragðlaust.

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband