Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 14. september 2009
Hökusig aldarinnar
Gæðablóð hefur staðið í nokkrum landvinningum undanfarnar vikur. Þessi músíkalska útrás hefur aðallega verið uppá Akranes, hjá Ragga smið og Breiðarbónda. Raggi keypti gamla Hótelið þar voru stigin mörg djarfleg dansspor í den. Hótelið heitir Breiðin nú. Breiðarbóndinn sýndi mikinn rausnar og höfðingsskap og bauð öllum Gröndurum plús Gæðablóði í sætaferð á Skagann þar sem hann og spúsan tóku á móti mannskapnum með þvílíkum virktum að lengi verður haft í minnum og mætti segja margar sögur af öllum þeim skemmtilegheitum sem þar áttu sér stað. Þær sögur bíða betri tíma.
Gæðablóð hefur nú spilað í tvígang á Breiðinni og einhver plön eru um að festa fylgið þar með öðru giggi þegar plata hljómsveitarinnar kemur út, hvenær sem það nú verður.
Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem Gæðablóð hleypir heimdraganum til útrásar fyrir utan 101. Fyrir nokkrum misserum aðstoðaði hljómsveitin glerlistakonuna Sigrúnu Einarsdóttur við jólasölu uppí Kjós, sem var ekkert annað en kærleiksverkefni. Sömuleiðis önnur saga.
Eftirminnilegasta útrásarverkefni Gæðablóðs verður samt að teljast þegar hljómsveitin opnaði Smurstöðina í Kópavogi. Það bar til með þeim hætti að cajun leikarinn og allsherjarreddarasnilliguttinn Hallgrímur Guðsteinsson vélstjóri hafði aðstoðað við flókna tæknilega fídusa í uppsetningu smurstöðvarinnar, sem sérhæfir í í þjónustu við ofurjeppa og tröllafarartæki ýmis konar.
Þegar skemmtinefnd Smurstöðvarinnar fundaði um skipulagningu opnunargillisins þá var Hallgrímur kallaður til vegna þekkingar sinnar og tengzla í skemmtanaiðnaðinum. Hallgrímur sagði enga reisn yfir hátíðlegri opnun stöðvarinnar án þessa að iðka musicam andanum til unaðar. Þetta sá nefndin strax að var alveg rétt. Hallgrími var falið það verk að finna hljómsveit sem myndi hæfa atburðinum og hann sá sömuleiðis strax að Gæðablóð væri eina sveitin sem gæti stímúlerað mannskapinn við þetta tækifæri.
Það hýrnaði mjög yfir hljómsveitarmeðlimum þegar þessi tíðindi bárust í tjaldið við heimavöllinn Grand Rokk, enda höfði feitu gigginn verið sjaldgæf um þær mundir. Tíkall á mann og nóg að bíta og brenna! sagði vélstjórinn. Gæðablóð hafði viku til að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir konsertinn. Tíminn var notaður til skrafs og ráðagerða og fiskisagan flaug meðal Grandara sem höfðu eðlilega áhuga á þessu einstaka tækifæri hljómsveitarinnar til frama og frægðar í fjarlægu sveitarfélagi.
Skömmu áður, en þetta sem hér er um rætt, hafði sá gleðilegi menningaratburður átt sér stað að Frú Birna gaf út ljóðabókina Birna Þó... Útgáfunni hafði verið fylgt eftir með ljóðaupplestri í efri salnum á heimavellinum og Gæðablóð kompónerað og flutt viðeigandi undirskor til áhrifsauka við lesturinn. Allt tókst þetta með miklum ágætum og höfðu allir sóma af.
Þegar smurstöðvargiggið var einu sinni sem oftar rætt í smóktjaldinu, þá var eins og Frú Birna hefði orðið fyrir uppljómun og hún sagði hátt og snjallt með bjartri röddu: Strákar, ég kem bara með!..., flyt nokkur ljóð og þá erum við búin að breyta þessu grís djónti í menningarsmurstöð! Neh? Þessari hugmynd var fagnað með háværum hætti og síðan júbilerað með bravúr fram á kvöld.
Rann svo upp opnunarhátíðardagurinn bjartur og fagur. Pínulítið frost en hæglætisveður. Gæðablóð safnaðist saman á Smiðjustígnum í sínu fínasta svarta pússi. Frú Birna var rauð og svört að vanda, en hafði klæðst næstum syndsamlega stuttu leðurminipilsi fyrir konu nýkomna á sjötugsaldur, en Birna bar það auðvitað vel; leggjalöng, klassísk og yfir allan aldur hafin.
Hún sat fram í hjá Hallgrími í bláa Súbaróinum, en afgangurinn af bandinu mismunaði sér einhvern veginn í aftursætið, með instrumentin í skottinu.
Bíllinn rann í Kópavoginn um torræð og framandi hverfi þar til hann stöðvast fyrir utan húsalengju þar sem díversi stofnanir eru til húsa. Meðal annars gæludýrabúð, kynlífshjálpartækjaforretning, sjoppa og svo fjallajeppasmurstöðin.
Það var bjartur og víður salur sem blasti við artistunum þegar inn var komið og menn spáðu strax í akkústík og heppilegt svið fyrir performansinn.
Vélstjórinn sá um að allt gekk hratt og örugglega fyrir sig af áreynslulausri fágun atvinnumannsins. Þegar búið var að tengja, einntveira í mækinn og sándtékka riggið, þá fóru mennn að skoða í kring um sig. Þá kom í ljós að ekkert hafði verið skorið við nögl. Rautt og hvítt og eðalbjór til að skola niður flottustu snittum og smáréttum sem músíkantarnir höfðu séð á löngum og viðburðaríkum ferli. Þarna voru færustu vertar að verki, rennilegar servitrísur gengu um beina og allt var spikk og span. Það beinlínis stirndi á smurstöðina.
Hátíðargestir voru að stærstum hluta væntanlegir kúnnar Smurstöðvarinnar, vörpulegir 300 punda snáðar með bert niðrá loðnar bringur og í óreimuðum rosabullum. Kvenfólkið þeirra var frekar mjóslegið og með með fas þeirra sem þurfa að sitja lengi einar heima vegna fjarveru makans. Pleisið var pakkað.
Gæðablóð tók Zanzíbarinn fyrst. Þetta sexí bossanóvanúmer með draumkenndum texta Mákans virkaði ekki neitt. Núll, nada. Það var eins og hljómsveitin væri ekki á staðnum. Fjallasnáðarnir og spúsur þeirra röðuðu í sig réttunum, drukku rautt og hvítt og sögðu margar sögur í einu, ráku upp miklar rokur og höfðu hátt. Fíngerð lýríkin um sorg og ástir með sniðugum súbplottum, samhúmanískum fíling og óvæntu tvisti í endann átti fyllilega erindi við gestina en þeir bara hlustuðu ekki. Eggjandi ryþminn, salsa, mazúrka, blús og jazz hafði akkúrat engin áhrif á þetta lið.
Gæðablóð spilaði nokkur lög til viðbótar, Frænkuna, Fluguna og sitthvað fleira áður en blásið var serímóníulaust til pásu. Þetta gengur ekki rassgat, var hin almenna niðurstaða spilaranna um fyrsta settið á gigginu. Á meðan Gæðablóð spilaði hélt Frú Birna sig til hlés í kamesi verkstjórans og undibjó sinn performans, æfði nokkrar nettar pósur og tók raddæfingar.
Best að drífa þetta vonlausa gigg af sagði Tómas og gekk á sviðið og kynnti Reykjavíkurskáldið frá Borgarfirði eystra. Góðir gestir, næst á skemmtidagskránni er ljóðalestur, þessari tilkynningu var mætt með háværu skvaldri og suði, það hlustaði ekki kjaftur. Hin eina og sanna Birna Þórðardóttir ætlar að flytja nokkur ljóð úr nýútkominni ljóðabók sem hefur vakið mikla athygli út um gervalla miðborg Reykjavíkur og annars staðar. Gefið henni gott klapp! Engin viðbrögð og ekkert klapp.
Skáldið kom á réttu kjúi inná sviðið og tók sér stöðu við mækinn. HLJÓÐ! æpti Frú Birna gleiðfætt í minipilsinu, HLJÓÐ! Skvaldrið smá dó út og fólk snéri sér furðu lostið að sviðinu til að gá hver væri að trufla partíið. HLJÓÐ! Æpti hún enn, Það er bara gaga að lesa ljóð ef þið eruð með þennan hávaða. Þið þarna útí horni, komaso! Hættið þessum montsögum í smástund á meðan ég les!!
Það var raddblærinn sem gerði það að verkum að mannskapurinn steinþagnaði. Frú Birna kann að beita röddinni til að fá fólk til að hlýða, enda hert í áratuga sósíalískri baráttu fyrir alþýðuna.
Þegar þögn var dottin á og athyglin óskipt á hinni sex feta háu skáldkonu, hóf hún lesturinn. Homage a Johnny Cash var fyrst og Gæðablóð spilaði chinka chink á meðan hún las. Hún las með meiri tilþrifum en nokkru sinni hafa sést á nokkurri íslenzkri smurstöð og þótt víðar væri leitað. Frú Birna sleppti ekki takinu af áheyrendum og vatt sér strax í létt erótísk kvæði úr nýju bókinni, sem negldu athyglina fyrir fullt og fast. Hún átti salinn.
Þegar kom að ljóðlínunni Taktu mig, Taktu mig, Taktu mig sem hún hvíslaði kisulega í mækinn, þá varð, það sem Hallgrímur vélstjóri kallaði síðar; hökusig aldarinnar. Menn höfðu staðið þöglir undir lestrinum, forviða og með undrun í svipnum, en þessi ljóðlína lét höku hörkutólanna síga. Það var sjón sem enginn hafði áður séð; kollektívt hökusig fjallakarla á smurstöð undir ljóðalestri. Kvenfólkið var hins vegar harðlæst í framan. Gæðablóð áttaði sig strax á að eitthvað óvenjulegt, sögulegt og sérstakt var að gerast. Spilaði lágvært atónal grúv sem rímaði við ástarbrímkveðskapinn og hrökk í fínan gír.
Frú Birna var með mómentið á hreinu, pósaði fínlega, ekki of djarft, aldrei gróft. Handar og höfuðhreyfingar hennar undirstrikuðu sérhverja línu, sérhvert orð og það var eins og tíminn stæði kyrr. Hreinir töfrar skáldskaparins voru algerir. Það var eins og Smurstöðin hefði breyst í ævintýrahöll þar sem munúð, unaður og sæla blönduðust og umvöfðu hugarheim hverrar sálar. Það hreinlega birti í salnum um nokkur þúsund lúx.
Gæðablóð og Frú Birna höfðu ákveðið að lesin skyldu 3 ljóð við undirleik, en töfrarnir voru slíkir að ljóðin urðu helming fleiri. Þegar performansinum lauk þá var eins og eilífðin hefði gert vart við sig í nokkur andartök í djúpri þögn. Þá var sem liðið hefði losnað úr álögum og allt varð vitlaust í fagnaðarlátum, fólk klappaði og stappaði, gargaði og gólaði. Gleðibros og tár á hverjum vanga.
Drífa sig strákar! sagði skáldkonan, nú er ég búin að mýkja pakkið og þá er að selja nokkrar bækur á meðan það er soft. Gítarleikarinn þurfti skyndilega á salerni að halda, en Máki og Tommi heldu í humátt eftir Frú Birnu í sölumennsku. Bókin seldist í þrem eintökum sem Gæðablóði fannst bara nokkuð gott, svona miðað við aðstæður, en Frú Birna var ekki lukkuleg með afraksturinn. Djöfulsins nízkupúkar var einkunin sem hún gaf hátíðargestunum við opnun Smurstöðvarinnar.
Seinna settið rann í gegn með aðeins betri undirtektum en það fyrra að mati reyndra manna í tónleikahaldi. Kennslukonan er djarfasti texti Mákans, íslenzka fokk orðið kemur meir að segja fyrir í honum. Þetta vakti mesta lukku sem og fjöldasöngurinn í endann.
Rigginu var pakkað í hasti og Gæðablóð leyst út með helling af bjórkippum og einhverju fleiru. Biðin fyrir utan var drjúg því Frú Birna vildi ekki gefast upp í bóksölunni, þótt bæði Máki og Tommi hefðu játað sig sigraða í þeirri göfugu list. Loks var haldið af stað og farið á Grandið til að fagna fyrsta alvörugigginu utan heimavallar.
Það verður að segja hljómsveitinni til hróss að útrás Gæðablóðs skildi ekki eftir sig sviðna jörð, öfugt við aðra útrásarvíkinga. En það verður jafnframt líka að viðurkennast að Frú Birna átti sterkasta leikinn og gerði þetta gigg eftirminnilegt. Án hennar hefði þetta verið dauft og bragðlaust.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Nína & Friðrik
Hann var barón, hún var öskubuska. Þau voru glæsilegasta parið í Evrópu ca 1960. Nina og Friðrik.
Meðan rokkið tryllti kanann, þá var kalypsó málið í Evrópu. Sexí ryþmi og einfaldar melódíur sem Baron Frederik Jan Gustav Floris van Pallandt frá Hollandi hafði með sér til Danmerkur þegar stutt varð um nám í landbúnaði á Trinidad.
Friðrik var myndarlegur snáði sem náði sér í gullfallega kærustu í Köben. Saman sungu þau uppáhaldslög Frissa frá Trinidad og slógu gersamlega í gegn, ung, glæsileg og með blátt blóð í æðum.
Þau áttu hvern smellinn á fætur öðrum útum alla Evrópu, líka í Asíu og Ástralíu, meir að segja í Ameríku.
Nina og Friðrik komu til Íslands og héldu tónleika í Reykjavík, 1962.
Saga þeirra er afskaplega sérstök og varð mjög dramatísk. Ég ætla að rekja hana í þættinum TRIO á Rás 1, miðvikudaginn 11. Feb.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. febrúar 2009
Júróvissjón
Söngvakeppni Sjónvarpsins er uþb að ljúka, einn þáttur eftir þar sem úrslitin ráðast.
Keppnin hefur verið, ja eins og oft áður, athyglisverð. Þá er ég ekki bara að tala um tónlistina eða lögin sem keppa, heldur líka umgjörðina og kynninguna og hæpið sem Sjónvarpið skapar í kringum allt þetta spilerí.
Tónlistin per se hefur verið óvenju litlaus. Eina lagið sem mér fannst eitthvað varið í féll strax í fyrsta þætti.
Hver svo sem niðurstaðan verður og hver það verður sem fær farmiðann útí heim til að keppa í Júróvissjón, þá er ekki spurning, ekki skuggi af efa á því að ótvíræðir sigurvegarar Söngvakeppni Sjónvarpsins að þessu sinni eru þær Eva María og Ragnhildur Steinunn.
Án þeirra hefði þátturinn hreinlega dáið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Bob Justman
Undanfarið hefur ný plata, Happiness & Woe með Bob Justman, verið á fóninum. Bob er íslenzkur drengur sem er greinilega afar vandvirkur í hljóðveri og hefur lagt mikla vinnu og alúð í verkefnið. Hann er með topp músikanta með sér og sjálfur spilar hann laglega á ýmis hljóðfæri.
Happiness & Woe er það sem bretar kalla bedsit music, innhverfar og lágstemmdar hugleiðingar um ástina og lífið, en með drjúgu dassi af angst og sjálfsvorkunn.
Þetta er ágætis frumraun (veit ekki til að BJ hafi gefið eitthvað út áður). Pródúksjónin er vönduð, frekar fínlegur og brothættur hljóðheimur er presenteraður hér og hann rímar nokkurn veginn við þann tón sem er að finna í textunum.
BJ treður ekki nýja slóð með lagasmíðum sínum og sýnir ekki mikil tilþrif, hvorki í harmóníu né melódíu. Þetta er heldur ekki tilþrifamikil tónlist. Spennan og dramatíkin felst í einfaldleikanum í tónlistinni og tilvistarkreppunni, týndri ást og einmannaleika í textunum.
Gallinn er hins vegar sá að textarnir eru lakasti parturinn og draga heildina lóðrétt niður. Sem er synd, því ef BJ hefði lagt álíka alúð og vinnu í textann einsog tónlistina, þá hefði útkoman orðið umtalsvert mikið betri.
**
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Tony Rice
Upphefst nú blogg á ný eftir ágætt hlé. Að þessu sinni þá verður einungis músíkblogg á þessari síðu. Hugleiðingar, pælingar og jafnvel gagnrýni, ef ég nenni. En ekkert annað en tónlist og efni henni tengt verður hér að finna á næstunni. Hversu lengi ég held þetta út og hversu mikið og hvers oft ég skrifa verður bara að koma í ljós.
Byrjum á Tony Rice. Ég hlustaði töluvert á Tony fyrir ca aldarfjórðungi og var gersamlega heillaður af því hversu flúent hann spilaði. Tónninn jafn, jafnvel of sléttur, en elegansinn í spunanum var mjög sjarmerandi. Tæknin var slík og hraðinn svo flottur að hann minnti á hraðskreiða og gljáfægða eimreið. Hnökralaus áferð einkennir spilamennskuna, svo hnökralaus að hún er eins og fínasta silki í kvöldblænum.
Gallinn er sá að músíkin verður óspennandi þegar maður hlustar of mikið og of lengi. Eins og óverdós af vanillu.
Ég hafði ekki hlustað á Tony í mörg mörg ár þar til allt í einu rakst ég á eitthvað á YouTube með honum. Nú er ég búinn að setja töluvert af tónlist með honum á æpoddann.
Tony hefur elzt illa, það er hörmung að sjá hann og röddin er ónýt. Þetta var svona frekar viðkunnanlegur og myndarlegur sláni að sjá í den, grannur og með hormottu. Einhvers staðar las ég í framhaldinu að of mikið kók hafi spillt öllu hans lífi. Núna er hann sem útbrunnið horað hrak.
En hann getur svo sannarlega spilað, betri í dag en síðast þegar ég heyrði í honum. Raddleysið harma ég ekki, því hann var aldrei spes söngvari, en gítarleikurinn er fáránlega flottur. Hann er ennþá fyrirmynd ungra kassagítarleikara sem flattpikka, hann er ennþá á hæsta standard.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Gæðablóð, Frú Birna og Fröken Magga
Þau eru ýmis skemmtilegheitin sem maður lendir í sem betur fer. Fyrir nokkuð mörgum mánuðum var stofnuð hljómsveit, sem átti að vera húsband á Púlstofu á vafasömum stað á Hverfisgötunni. Á Púlstofunni var spilað kúluspil af ýmsum sortum, haldin bridge og skákmót. En í raun varð þetta félagsheimili fyrir alls kyns lífskúnstnera á mjög svo mismunandi þroskastigi.
Húsbandið átti að spila einu sinni til tvisvar í mánuði, flytja eigin lög og vera vettvangur fyrir þá söngvara og föruskáld sem ýmist sátu þarna slímsetur eða ráku inn nefið. Kombóið var skipað einum barþjóni Púlstofunnar, trúbadúr frá Ólafsfirði og yðar einlægum. Gigginn urðu ekki fleiri en 2. Ekki vegna þess að þau væru svo mislukkuð, tværtimod. Heldur vegna þess að hinir menningarlegu sinnuðu vertar urðu þreyttir á þeirri lýjandi vinnu sem fylgir svona rekstri og snéru sér að öðru. Þá tók við mannskapur sem hafði aðrar hugmyndir um kúltúr og húsbandið var rekið án nokkurra málalenginga.
Húsbandið hafði þegar hér var komið sögu fengið nafnið Gæðablóð og munstrað í þokkabót servetrísu af svo gott sem næsta bar. Fjórða næsta bar ef farið er beint í vesturátt. Það var gert vegna þess að hún syngur svo vel. Það þótti líka mjög til bóta að fá kvenmann í frontinn til að bæta lúkkið á bandinu.
Gæðablóðin lentu á götunni. Við tók eyðimerkurganga sem stóð í nokkra mánuði. Hjartað sem dældi blóðinu sló dauft en lifði þó. Það voru spiluð nokkur tilgangslaus og misheppnuð lausagigg þar sem enginn hlustaði, allir görguðu og bandið var hálflamað.
Þá gerðist undrið. Organiseraði ekki bassaleikarinn, barþjónninn af Púlstofunni, músikalskan kabarett í kjallara við Þingholtsstræti. Prógrammið var útpælt og hannað til að spila á tilfinningaskalann allan hjá áheyrendum. Að vísu mætti vel innan við milljón manns á gjörninginn en stemningin var ósvikin og tótal sökksess að mati færustu og reyndustu manna.
Gæðablóðin byrjuðu án söngkonu. Trúbadúrinn Ólafsfirzki söng sína ljúfsáru söngva um frænkur og ömmur, ljósaperur og flugur og það mátti heyra rykið falla. Það sást varla þurr vangi í kjallaranum og tónninn hafði verið sleginn.
Þá tók Frú Birna við. Til að auka enn frekar á unað ljóðalesturs hennar var fenginn trúarleiðtogi utan úr bæ til stuðnings, kosmísk vera sem þandi fimbulorgan. Barþjónninn fyrrverandi galdraði seið úr undirdjúpunum. Frú Birna er engu lík. Reynsla hennar af baráttunni fyrir frelsi og jafnrétti hefur ekki gert hana hokna, öðrunær. Hún stóð keik og ljóðaði um ástina af stakri snilld, innlifun og mildri dramatík með einhverjum flottustu pósum sem hafa sézt við þIngholtsstrætið og þótt víðar væri leitað og annars staðar. Salurinn sefaðist.
Gæðablóðin stigu aftur á svið og nú með söngkonuna fremsta. Ástar og saknaðarljóð úr kvikmyndum, blágresi og Ólafsfirði voru sungin, plús eitt frá Svíþjóð, sem ég veit ekki enn hvað fjallar um. En engu að síður þá var sambandið milli hljómsveitar og áheyranda komið á slíkt stratóferískt flug að ekkert gat klikkað. Enda klikkaði ekki neitt nema einn e strengur í grænum Gretsch, sem sakaði engann nema eigandann.
Ég hef aldrei verið sáttur við hið vafasama gastrónómíska hugtak; rúsínan í pylsuendanum, af frekar augljósum estetískum ástæðum sem ég þarf ekki fara útí hér. En hugsunin við þetta hugtak er öllum líkindum sú að hið bezta kemur síðast. Og það er nákvæmlega það sem gerðist í undirheimum Þingholtsstrætis þetta óðinsdagskvöld í Reykjavík.
Margrét Guðrúnardóttir heitir stelpa sem er um tvítugt. Hún semur og syngur eigin lög og ljóð, spilar í píanó. Með henni spilar Bandið Hans Pabba, sem er skipað flottasta ryþmapari íslenzka rokksins og fínasta blúsgítarista sem landið hefur enn alið.
Á þessum tímapunkti kabarettsins hafði verið reynt mjög á melodramatískar taugar allra viðstaddra. Þess vegna var það eins og ferskur kvöldbær vestan um haf eftir heitan dag þegar Fröken Magga söng sinn óð. Ryþmablúsinn gekk í endurnýjun lífdaga þetta kvöld. Þá er ég að tala um alvöru ryþmablús, ekki þetta gerilsneydda og náttúrulausa arrendbí sem hefur mengað hlustir jarðarbúa of mikið of lengi. Fröken Magga hljómaði eins og hún væri í beinu sambandi eftir lífrænni taug við Memphis, klíentalið fékk glint í öjet og það flæddu erótískir straumar í söfnuðinn. Gæti trúað að þetta hafi endað með alls kyns búgalú hjá ýmsum þegar heim var komið.
Svona er nú galdur músíkurinnar, hún bæði læknar og örvar. það er ekkert nema forréttindi að fá að taka þátt í svona ævintýri.
Bloggar | Breytt 29.4.2008 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
10 óbrigðul tákn þess að allt er að fara til helvítis
1. Býflugurnar eru drepast í hrönnum vegna farsímabylgna
2. Matvælaverð er að margfaldast
3. Eldsneytisverð hækkar endalaust
4. Íslenzkir vörubílstjórar mótmæla afþvíbaraútafeinhverjusemenginnmanlengur
5. Farfuglarnir hættir að rata
6. "Viss öfl" vilja reka Davíð Oddsson úr Seðlabankanum
7. KR tapaði stórt fyrir Skaganum
8. Vaxtavextir hafa aldrei plagað fólk eins þungt
9. Golfstraumurinn er að fara í frí
10. Sjálfur er ég orðinn eitthvað ómögulegur innan um mig ef mig skyldi kalla um þessar mundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. apríl 2008
3-13 mínútur er málið
Man mannskapurinn eftir frétt sem var efnislega á þá leið að kynlíf væri best lukkað ef það stæði í 3 til 13 mínútur? Ég varð einhverra hluta vegna hugsi yfir þessari frétt á morgungöngunni. 3 mínútur er "Bláu augun þín" í fullri lengd með glissinu hjá Jensen í lokin. 13 mínútur er sá tími sem tekur mig að hita frosið brauð í ofni, nota bene án þessa hvítlaukssmjörlíkis sem er ógeðslegt. Ég er innan við 13 mínútur að ganga heiman frá mér og uppá Klambratún í góðu sumarfæri.
Reyndar fylgdi fréttinni að þessi tími innihéldi ekki "forleik" og heldur ekki hin þokukennda "eftirleik". Þessar ídeölu 3-13 mínútur eru hreint og klárt samfaraatriði, hankípankí, innogút. Þetta var að mig minnir niðurstaða 50 sérfræðinga í kynhegðun mannapans.
Þegar allt er reiknað með, forleikur, hankípankí og eftirleikur, þá sé ég að þetta er uþb passlegt. Þetta er eins og göngutúr í vinnuna, ca 35 mínútur, nema miklu skemmtilegra. Ég tek það strax fram að ég er mikill unnandi afmors ljúfu lista, finnst þær ólíkt meira gefandi en tam eróbikk, skokk eða skjalaflokkun. Samfarir eru frábær endir á sjónvarpsglápi, skraflspili og rúsínan í pylsuendanum eftir hressandi rifrildi. Ég myndi aldrei fara út að hlaupa eftir 10 fréttir Sjónvarpsins svo lítið dæmi sé tekið. Það gera bara asexual nördar.
Niðurstaða þessarar rannsóknar kynfræðinganna færði mér frið. Ég hef eiginlega aldrei trúað þessu almennilega þegar menn segja mér að þeir hafi "verið að alla nóttina". Hvernig getur fólk eytt heilli nótt í svo endurtekningasamt athæfi eins og sex? Hjakkað í 8 klukkustundir eins og einhverfar spætur? Það væri álíka mikið stuð eins og að horfa á málningu þorna, eða fylgjast með tánöglum vaxa.
3-13 mínútur er málið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. apríl 2008
"Græna Ljósið" í myrkrinu
Fór í bíó um daginn sem er ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég tók eftir að miðaverð hefur hækkað rosalega. 1000 kall takk.
Sem er svo sem ekki úr takt við aðrar "verðbreytingar" sem hafa orðið að undanförnu. Maður verður bara kindarlegur og borgar uppsett verð og trítlar hnípinn í poppogkókröðina. Þar kemur annað hækkunarsjokk.
Bíóferðir voru skemmtilegar, eða svo minnir mig, hér í den, en þetta er orðin óttaleg þrautaganga nú til dags. Það er ekki bara dýrt að fara í bíó, það er okrað á veitingunum, það eru sýndar auglýsingar í ca 10 mínútur fram yfir auglýstan sýningartíma, svo koma trailerar á ógeðslegu blasti, svo kemur óþolandi hlé, fyrirbæri sem þekkist hvergi annars staðar í veröldinni.
En verst af þessu öllu er sóðaskapurinn. Hreinlæti í kvikmyndahúsum hrakar í réttu hlutfalli við hækkandi miðaverð. Umbúðir útum allt, popp útum allt og svo límast skósólarnir við sykurklístrið eftir allann niðurhellinginn á gosdrykkjunum. Sæti eru aldrei hreinsuð og lyktin er ekki geðsleg.
Ég hlakka til að nýta mér kvikmyndahátíðina "Græna Ljósið" sem nú stendur yfir í Regnboganum. Á henni gilda reglur sem koma í veg fyrir nánast allt sem ég er búinn að væla yfir hér að ofan. Fyrir nú utan að þarna virðast vera verulega skemmtilega myndir til sýningar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 5. apríl 2008
Meinlaust rokk og ról
Einu sinni var maður vestur í Bandaríkjunum sem hét Elvis. Hann var svo hættulegur að þegar hann var sýndur í sjónvarpi þá var hann myndaður frá mitti og uppúr, því það sem var fyrir neðan beltisstað ofbauð siðferðiskennd sannkristinna. Tónlistin sem hann flutti var úthrópuð sem úrkynjun, ógn við siðgæði, árás á kristin gildi, hreint ógeð.Rokk og ról var uppreisn unglinga gegn ríkjandi viðhorfi, frelsun frá kúgun eldri kynslóðarinnar.
Þessi uppreisn hefur nú lukkast svo vel að rokk og ról er orðið meinlaust, bitlaust og nánast innihaldslaust. Smá sprikl hér og þar eins og pönkið hefur fjarað út, nú er rokk orðið hluti af "stofnuninni". Núna lærir ungt fólk rokk í þartil gerðum skólum á vegum hins opinbera, sækir um styrki til tónleikahalds, sækir um styrki til útgáfu tónlistar sinnar og sækir um styrki til tónleikahalds erlendis. Rokk og ról er með öðrum orðum orðið meinlaust og hefur algerlega misst sinn höfuðtilgang sem er að ógna ríkjandi viðhorfum.
Rokk og ról er búið að ná svipuðum status og leiklistin, bókmenntir og myndlistin, svona notalegt klíkupartý með léttum veitingum á eftir.Nýjan Elvis plís...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)