Gæðablóð, Frú Birna og Fröken Magga

Þau eru ýmis skemmtilegheitin sem maður lendir í sem betur fer. Fyrir nokkuð mörgum mánuðum var stofnuð hljómsveit, sem átti að vera húsband á Púlstofu á vafasömum stað á Hverfisgötunni. Á Púlstofunni var spilað kúluspil af ýmsum sortum, haldin bridge og skákmót. En í raun varð þetta félagsheimili fyrir alls kyns lífskúnstnera á mjög svo mismunandi þroskastigi.

Húsbandið átti að spila einu sinni til tvisvar í mánuði, flytja eigin lög og vera vettvangur fyrir þá söngvara og föruskáld sem ýmist sátu þarna slímsetur eða ráku inn nefið. Kombóið var skipað einum barþjóni Púlstofunnar, trúbadúr frá Ólafsfirði og yðar einlægum. Gigginn urðu ekki fleiri en 2. Ekki vegna þess að þau væru svo mislukkuð, tværtimod. Heldur vegna þess að hinir menningarlegu sinnuðu vertar urðu þreyttir á þeirri lýjandi vinnu sem fylgir svona rekstri og snéru sér að öðru. Þá tók við mannskapur sem hafði aðrar hugmyndir um kúltúr og húsbandið var rekið án nokkurra málalenginga.

Húsbandið hafði þegar hér var komið sögu fengið nafnið Gæðablóð og munstrað í þokkabót servetrísu af svo gott sem næsta bar. Fjórða næsta bar ef farið er beint í vesturátt. Það var gert vegna þess að hún syngur svo vel. Það þótti líka mjög til bóta að fá kvenmann í frontinn til að bæta lúkkið á bandinu.

Gæðablóðin lentu á götunni. Við tók eyðimerkurganga sem stóð í nokkra mánuði. Hjartað sem dældi blóðinu sló dauft en lifði þó. Það voru spiluð nokkur tilgangslaus og misheppnuð lausagigg þar sem enginn hlustaði, allir görguðu og bandið var hálflamað.

Þá gerðist undrið. Organiseraði ekki bassaleikarinn, barþjónninn af Púlstofunni, músikalskan kabarett í kjallara við Þingholtsstræti. Prógrammið var útpælt og hannað til að spila á tilfinningaskalann allan hjá áheyrendum. Að vísu mætti vel innan við milljón manns á gjörninginn en stemningin var ósvikin og tótal sökksess að mati færustu og reyndustu manna.

Gæðablóðin byrjuðu án söngkonu. Trúbadúrinn Ólafsfirzki söng sína ljúfsáru söngva um frænkur og ömmur, ljósaperur og flugur og það mátti heyra rykið falla. Það sást varla þurr vangi í kjallaranum og tónninn hafði verið sleginn.

Þá tók Frú Birna við. Til að auka enn frekar á unað ljóðalesturs hennar var fenginn trúarleiðtogi utan úr bæ til stuðnings, kosmísk vera sem þandi fimbulorgan. Barþjónninn fyrrverandi galdraði seið úr undirdjúpunum. Frú Birna er engu lík. Reynsla hennar af baráttunni fyrir frelsi og jafnrétti hefur ekki gert hana hokna, öðrunær. Hún stóð keik og ljóðaði um ástina af stakri snilld, innlifun og mildri dramatík með einhverjum flottustu pósum sem hafa sézt við þIngholtsstrætið og þótt víðar væri leitað og annars staðar. Salurinn sefaðist.

Gæðablóðin stigu aftur á svið og nú með söngkonuna fremsta. Ástar og saknaðarljóð úr kvikmyndum, blágresi og Ólafsfirði voru sungin, plús eitt frá Svíþjóð, sem ég veit ekki enn hvað fjallar um. En engu að síður þá var sambandið milli hljómsveitar og áheyranda komið á slíkt stratóferískt flug að ekkert gat klikkað. Enda klikkaði ekki neitt nema einn e strengur í grænum Gretsch, sem sakaði engann nema eigandann.

Ég hef aldrei verið sáttur við hið vafasama gastrónómíska hugtak; rúsínan í pylsuendanum, af frekar augljósum estetískum ástæðum sem ég þarf ekki fara útí hér. En hugsunin við þetta hugtak er öllum líkindum sú að hið bezta kemur síðast. Og það er nákvæmlega það sem gerðist í undirheimum Þingholtsstrætis þetta óðinsdagskvöld í Reykjavík.

Margrét Guðrúnardóttir heitir stelpa sem er um tvítugt. Hún semur og syngur eigin lög og ljóð, spilar í píanó. Með henni spilar Bandið Hans Pabba, sem er skipað flottasta ryþmapari íslenzka rokksins og fínasta blúsgítarista sem landið hefur enn alið.

Á þessum tímapunkti kabarettsins hafði verið reynt mjög á melodramatískar taugar allra viðstaddra. Þess vegna var það eins og ferskur kvöldbær vestan um haf eftir heitan dag þegar Fröken Magga söng sinn óð. Ryþmablúsinn gekk í endurnýjun lífdaga þetta kvöld. Þá er ég að tala um alvöru ryþmablús, ekki þetta gerilsneydda og náttúrulausa arrendbí sem hefur mengað hlustir jarðarbúa of mikið of lengi. Fröken Magga hljómaði eins og hún væri í beinu sambandi eftir lífrænni taug við Memphis, klíentalið fékk glint í öjet og það flæddu erótískir straumar í söfnuðinn. Gæti trúað að þetta hafi endað með alls kyns búgalú hjá ýmsum þegar heim var komið.

Svona er nú galdur músíkurinnar, hún bæði læknar og örvar. það er ekkert nema forréttindi að fá að taka þátt í svona ævintýri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband