Sunnudagur, 25. febrúar 2007
Blástjarnan
Í stjörnumerkinu Lyra er skærust stjarna sem ber heitið Vega. Akkúrat núna þegar þetta er skrifað skín hún svo fagurlega á suðurhimninum, ca 40´fyrir ofan sjóndeildarhring í hásuðri. Á íslenzku heitir hún Blástjarna. Hún gleður auga gamals sjómanns sem lærði á stjörnuhimininn á löngum siglingum með Íslandsströndum veturinn 1972 - 3.
Blástjarnan er fögur, hún er ein skærasta stjarna festingarinnar og fer aldrei undir sjóndeildarhring hér á norðurslóð. Hún myndar ásamt Altair í Erninum og Deneb í Svaninum þríhyrning sem margir þekkja og er áberandi á vornóttum.
Blástjarnan er stjarna músíkanta því hún er Alpha Lyrae, skærust stjarna í Hörpunni. Hún er líka ein af örfáum sem eiga sér íslenzkt nafn. Það er furðulegt að ekki skuli hafa varðveizt nöfn stjarnanna á norrænum málum eins mikið og forfeður okkar navigeruðu og þurftu þar af leiðandi að kunna vel á festinguna.
Ekki langt frá Vegu er Arcturus, hann er vestar og aðeins lægra á himninum. Skær og fögur stjarna sem gleður líka.
Ég er óttalegur stjörnuglápari og get gleymt mér tímunum saman vegna fegurðarinnar. Synd að við borgarbúar skulum hafa fórnað þeirri fegurð með ljósmengun. En það má samt sjá þær skærustu og gleðjast yfir þeim. Svo má alltaf bregða sér útfyrir bæinn, finna sér stað þar sem hægt er að leggjast á bakið og týna sér í dýrð himinsins. Ekki verra að hafa tónlist við hæfi í eyrunum.
Athugasemdir
Fátt lætur þú nú framhjá þer fara kæri vin. Nema kannski að svara meilum vina sinna, sem senda eftir kontöktum við ofurstrigann og trailer raspinn.
Annar er ég líka svona stjörnuglópur og kemst í upphafið ástand og hugarró við að horfast í augu við engla.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.2.2007 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.