Fimmtudagur, 15. mars 2007
eldhúsdagur
Ég hef alltaf tamið mér að tala við börn eins og viti bornar manneskjur. Ég breyti ekki um tón eða hljóðfall, nota eðlilegt beygingarkerfi íslenzkunnar, ekki bara nefnifall og nútíð. Þetta snarvirkar. Manneskjan er næmust á bernskuskeiðinu.
Ég reyni að forðast að spjalla við þau um flókna bíbopskala, æxlunarferli lindýra eða muninn á 442 og 433. Og alls ekki slúður úr heimi fullorðinna. Ég bara kann það ekki. En allt annað er hægt að ræða við börn á venjulegri íslenzku.
Mér leið hins vegar eins og barni sem er talað niður til þegar ég kveikti óvart á sjónvarpinu í gærkvöld, þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar voru að tala til þjóðarinnar um helztu pólitísku ágreiningsmálin núna fyrir komandi kosningar. Hvað er að? Af hverju kemur þetta fólk svona fram við okkur? Hvers vegna breytast þingmenn í væmnar "kerlingar" sem tala "barnamál" þegar þeir þurfa að kommúnikera við kjósendur?
Það er eins og það hafi gersamlega farið fram hjá þeim að virðing okkar hefur dvínað hratt fyrir þingmönnum. Maður sér þetta fólk aldrei rökræða mál, maður sér það aldrei nema í einhverri spælingakeppni í sjónvarpi af og til. Þegar þingmenn voru spurðir um ástæðu minnkandi virðingar þá kenndi stjórnin andstöðunni um og vice versa. Síðan kemur þetta lið og talar til manns einsog geríatrísk frænka sem hittir mann bara á stórafmælum fyrir skyldurækni.
Ég verð æ hrifnari af hugmynd sem ég heyrði af fyrir löngu sem gengur útá að afnema flokkakerfið og kosningar. Þingmannsstarfið verði gert að þegnskylduvinnu, nöfn manna dregin af handahófi úr þjóðskrá og þeim gert að setja þjóðinni lög í 4 ár í senn. Það getur andskotann ekki verið verra system að það sem við búum við núna.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:17 | Facebook
Athugasemdir
Heyr heyr! Svo er líka skrítið að þeir sem hafa umboð okkar geti borið á okkur fé úr opinberum sjóðum til að kaupa sér lýðhylli og atkvæði. Væri ekki rétt að taka af þeim heftið svona 6 mánuðum fyrir kosningar, svo við losnum einhverntíma við þá úr litlu kringlunni við austurvöll?
Jón Steinar Ragnarsson, 15.3.2007 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.