Laugardagur, 17. mars 2007
Juarez
Nú nýverið var hér kona frá Mexikó að reyna að vekja athygli okkar á óhugnanlegu ástandi í borginni Juarez. Þar hafa fleiri hundruð konur verið myrtar, enn fleiri nauðgað. Þegar hún var spurð hvers vegna þetta ástand væri, svaraði hún óljóst eitthvað um mafíu og aðra vonda menn.
Þar létu okkar fréttamenn við sitja. Könnuðu ekki málið og misstu strax áhugann. Mér fannst þetta hins vegar óhugnanlegt og forvitnilegt. Af hverju skapaðist þetta ástandi í þessari fjórðu stærstu borg Mexikó á tiltölulega skömmum tíma?
Juarez liggur rétt sunnan við landamærin við Bandaríkin. Borgin var alræmd áður fyrr vegna þess að þar var hægt að fá hjónaskilnað á einum degi. Þangað fóru bandaríkjamenn sem vildu kvikk fix í þeim efnum. Þessum skilnaðarbransa fylgdi jaðarstarfsemi eins og vændi og eiturlyf.
1. janúar 1994 tók gildi North American Free Trade Agreement (NAFTA). Þetta þýddi frjálst flæði verzlunar og viðskipta milli Kanada, BRA og Mexikó. Þetta varð til þess að verksmiðjur í eigu bandaríkjamanna spruttu upp eins og gorkúlur í Juarez þar sem vinnuafl var ódýrast á NAFTA svæðinu. Ungar konur á aldrinum 17 - 25 flykktust til borgarinnar í leit að vinnu.
Þarna voru þær ótryggar, fjarri fjölskyldu og vinum í borg sem þekkti alla lesti. Það fór strax að bera á misnotkun á þessum ungu konum, nauðganir og ofbeldi. Síðan morð.
Það sem er hvað óhugnanlegast við þessi morð er hinn algeri skepnuskapur, líkin finnast sundurtætt á víðavangi, stundum ekki hægt að bera kennsl á þau. Bandaríkjamenn hafa alltaf neitað að bera nokkra ábyrgð á ástandinu, þeir eru bara í bissness, eiga sínar verksmiðjur sem eru reknar samkvæmt NAFTA samningnum.
Þessar ungu konur eru myrtar fyrir $55 sem þær fá í laun á viku í verksmiðjunum. Þær eru myrtar vegna þess að þær eru konur. Langflest líkin eru af grönnum, laglegum konum. Þær eru valdar út, nauðgað, rændar og svo myrtar.
Spillingin á sér djúpar og gamlar rætur í Juarez. Það hefðu menn átt að vita þegar þeir hófu að reisa þar verksmiðjur í óðaönn uppúr 1994. En græðgin er blind á þjáningar mannanna, gömul saga og ný.
Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að konurnar hafa risið upp gegn þessu ástandi og heimta nú réttlæti. Sú barátta er að skila þeim nokkrum árangri. HIngað til hefur enginn viljað af þessu vita, en nú hefur konunum tekizt að ná athygli, sérstaklega í BRA. Fjölmiðlar og mannréttindasamtök þar í landi hafa tekið málið að sér og þrýsta nú á stjórnvöld um úrbætur og réttlæti. Framundan eru kosningar í BRA, það mun eflaust þykja aðlaðandi fyrir frambjóðendur að taka að sér þetta mál, sérstaklega í suðvestur ríkjunum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.