Heimsborg og krummaskuð

Ég er nýkominn frá Rómaborg, citta aeterna. Eins og allir vita þá er þetta merkilegasta og söguríkasta borg heims. Þetta er líka mesti, elzti og frægasti ferðamannastaður heims og hefur svo verið í rúm 2000 ár.

Það er gott að vera í Róm og þangað liggja allar götur. Rómverjarnir kunna líka að umgangast ferðamenn, lausir við franska hrokann, brezka afskiptaleysið og amerísku græðgina.

Öll þjónusta er fáguð, tam er ekki svo lélegt kaffihús í Róm að þjónninn sé ekki í hvítri straujaðri skyrtu, slaufu, vesti og í burstuðum skóm. Rómverjar eru líflegir en kurteisir, hafa hratt á hæli en liprir.

Umferðin er gríðarleg og hröð, en það er system í galskapnum, hún virkar kaótísk á okkur en lýtur sínum lögmálum sem eru ákveðin ýtni, hraði en samt tillitssemi. Það er ekki svínað á mann, ekki frekjast og þeir kunna að leggja ökutækjum sínum af aðdáunarverðri kúnst.

Matur og drykkur er að sjálfsögðu í sérklassa, þetta var stanzlaus veizla. Og það sem meira er, án þess að kosta "arm and a leg".

Maður gerir ósjálfrátt samanburð á sínum heimastað og þessari miklu höfuðborg ítala. Hann er okkur mjög í óhag. Það er ekkert annað en sprenghlægilegt þegar maður heyrir þessar montræður sem borgarstjórar Reykjavíkur halda nokkrum sinnum á ári og kalla Reykjavík heimsborg. Reykjavík er ekki einu sinni borg, Reykjavík er stór Akureyri. Á meira skylt við Þórshöfn í Færeyjum en Kaupmannahöfn, hvað þá Róm.

Arkitektúr Reykjavíkur er sérstakt dæmi útaf fyrir sig, fiskimannaþorp með sovézkum og amerískum úthverfum. Hér fer maður ekki á kaffistað án þess að "þjónninn" sé eins og timbraður draugur, ótalandi á annað en á simplustu ensku.

Umferðin í Reykjavík er aðferð frekjunnar, tillitsleysi og einstrengingsháttur, bílum lagt hvar sem er og hvernig sem er.

Verðlagið á veitingastöðum Reykjavíkur er ekkert annað en okur og græðgi, ein einföld pizza, sem er ekkert annað en brauð með tómatsósu og nokkrum flísum af áleggi, kostar meir en 20 evrur. Í Róm 5. Vínflaska kostar hér ekki undir 25 evrum. Í Róm 5.

Um þar síðustu helgi var fullt tungl. Fréttir bárust til íslendingahópsins í Róm af fjölda líkamsmeiðinga, morði og annarri óáran í Reykjavík. Ég spurði þjóninn á barnum sem við sátum hvernig ástandið hefði verið í þessum málum í Róm. Hann leit á mig með nokkurri furðu og sagði að það hefði ekkert verið í fréttum af ofbeldi, morðum og nauðgunum, þetta væri frekar friðsæl borg að þessu leyti. Bætti svo við með smá brosi, við nauðgum ekki konum, við tælum þær, við beitum ekki ofbeldi til að ræna fólk, við notum teater.

Vissulega er nokkuð um þjófnað á Ítalíu, en þar er beitt brögðum, ekki ofbeldi. Vasaþjófnaður er "listgrein" sem er æfð og þjálfuð eins og hreinasta akróbatík eða leikhús. Er það ekki illskárra en hnífurinn og hnefinn?

En það sem er verst við Reykjavík er hið móróníska og tilefnislausa ofbeldi sem fólk verður fyrir, það er ekki einu sinni verið að ræna fólk peningum eða eigum, heldur aðeins að svala geðveikislegri árásarhvöt hvers eldsneyti er áfengi og amfetamín. Og kúltúrleysi.

Reykjavík er krummaskuð, Roma er heimsborg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Blöndal

Blessaður vinur Rgnar frá Elverhoj. Klárt mál - þetta hefði ég ekki orðað betur sjálfur. Var síðast í Róm fyrir tæpu ári síðan og síðast var ég í "krummaskuðinu" í byrjun maí í vor. Hér á hinni rómuð Rhodos er sömu sögu að segja.  Búinn að fá hingað tæplega 190 íslendinga vikulega síðan um miðjan maí og enn hefur engin verið rændur eða barinn og allir sem ég hef rætt við eru sammála um að hvergi hafi þeir hitt fyrir vinsamlegra fólk og alúðlegra.  Samt eru flestir sem hér starfa búnir að standa vaktina 9-24 frá því um miðjan apríl.  Þetta er alvöru "vertíðarfólk" við getum mikið lært af ítölum og grikkjum.  Ótrúlegt að okkur skuli samt ekki detta í hug að gera það.

Góðar kveðjur og velkominn aftur í "heimsborgina Krummaskuð"

Þinn vinur Gísli

Gísli Blöndal, 14.8.2007 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband