Sumarfrí

Sumarfrí er dásamlegt. Maður getur gert flest það sem maður hefur ætlað að gera, en ekki haft tíma til. Semja nýtt lag, læra á forrit, fara í langar gönguferðir, fara til útlanda, taka til í geymslunni, hugleiða lífið og tilveruna, meiri tíma með fólki sem manni þykir verulega vænt um, lesa, kaupa nýjan gítar, fara á hestbak, hlusta á tónlist sem tengist ekki vinnunni, dreyma dagdrauma,.... og blogga...

Ég fékk það verkefni um daginn að syngja og spila á tónleikum Hinsegin daga á Arnarhóli, með því skemmtilegra sem ég hef gert í sumar. Ég var þarna í fínum hóp sem Tommi Tomm hóaði saman af þessu tilefni, Gösli, Gummi P, alsherjargoðinn Hilmar og svo við Tómas. Við spiluðum tónlist úr kvikmyndinni Brokeback Mountain, viðeigandi í þessum samnhengi.

Búinn að fara oft í sund í sumar, frábær íþrótt og góð heilsurækt. Er núna afskaplega þakklátur fyrir þá góðu sundkennslu sem ég fékk fyrir austan sem strákur hjá Þorvaldi Jóhannssyni og Jökli á Eiðum. Þetta er soldil enduruppgötvun hjá mér og nú verður það sund og aftur sund.

Afskaplega er lítið í fréttum hér heima, notaleg gúrkutíð, en ekki öfunda ég afleysingaliðið á fjölmiðlunum sem þarf að fylla fréttatíma og blaðsíður af áhugaverðu efni. Eflaust góður skóli fyrir hugmyndaríkt fólk, en mikil ósköp er mikið af þessu fréttaefni klént og illa fram sett. Nú les ég fréttir nánast eingöngu á brezkum miðlum, BBC, Guardian etc. Þar kunna menn nú heldur betur til verka. Aðalfrétt Moggans í dag er um vigtun á fiski!

Ég fylgist með enska boltanum eins og ég hef gert frá unga aldri, og nú er hann byrjaður að rúlla mér og öðrum til skemmtunar. Ég læt það reyndar fara nokkuð í pirrurnar á mér þegar West Ham er kallað íslendingalið. Íslendingalið? þetta er alþjóðlegt Lundúnalið sem nokkrir ríkir kallar með íslenzka kennitölu eiga meirihluta í, rúmlega 99.999% íslendinga eiga ekki neitt í þessu liði, sem ég hef þó alltaf haft nokkrar taugar til því þeir spila oft svo skemmtilegan sóknarbolta.

Mikið er sólin búin að skína hér í Reykjavík. Ég er svo heppinn að vera með verönd sem snýr í suður, sól frá morgni til kvölds. Maður drekkur morgunkaffið úti, les fréttir á tölvunni. Tekur síðdegisteið og borðar kvöldmat úti undir berum himni dag eftir dag.

Þó að sé farið dimma og komið rökkur um miðnætti þá hef ég ekki enn lagst í stjörnugláp. Hefði átt að vaka aðfaranótt 13. ágúst því var loftsteinahríð, en þá hefði maður þurft að fara langt útfyrir bæinn vegna heilhveitis ljósmengunarinnar. Nennti ekki og svaf á mínu græna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Það er hreint ótrúlegt að geta dag eftir dag sest út í garð að vinnudegi loknum. Helst með bjórglas. Ég hef verið mikið í burtu í mínu fríi - eiginlega hef ég ekkert verið heima í fríinu og sakna þess dálítið. Fyrir utan nú hvað ég hefði þurft að taka til hendinni á heimilinu. Æi - það getur beðið hausts og vetrar

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 15.8.2007 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband