Planetarium á Þingvöllum

Það var fyrirhugað að skreppa austur á Sólheima í Grímsnesi í gærkvöld. Þar var boðið uppá stjörnuskoðun undir leiðsögn, þar voru sjónaukar og veðrið frábært. Því miður var litla blómið mitt hún Helga Sóley soldið lasin þannig að það var ekki sniðugt að vera með hana útí frostinu til að dást að dýrð festingarinnar. Við vorum því heima og stelpurnar kepptu í Singstar en ég týndi mér í Planetarium forritinu mínu, horfði á himininn í tölvunni.

Mig langaði að sýna dætrum mínum dýpt og ógnvekjandi fegurð geimsins, það verður enginn samur eftir að hafa séð Andrómedu, Óríon þokuna, hringi Satúrnusar etc. Maður verður svo smár. Það er hollt hverjum manni að uppgötva smæð sína í alheimnum. Pæla í því sem engin svör fást við.

Það er aðeins einn staður á Íslandi þar sem hægt er að skoða himininn í stjörnusjónauka, þeas ef maður á ekki slíkan sjálfur, og það er á Seltjarnarnesi af öllum stöðum. Ljósmengunin og veðurfarið á þeim annars ágæta stað er með þeim hætti að hann er ekki heppilegur.

Ég var háttaður og rétt að festa svefn þegar hugmyndin kom. Hún er sú að hið opinbera, með duglegum stuðningi einkafyrirtækja, setji upp stjörnuskoðunarstöð fyrir almenning á Þingvöllum. Sá staður er kosmískur í eðli sínu. Það er hins vegar ekkert kosmískt við sjoppuna og hótelið sem þar er að finna. Stundum hefur maður lesið einhverjar fyrirætlanir um byggingu einhvers konar "þjóðmenningarhúss", sem er bara fínt nafn yfir partístað fyrir ríkisstjórnina. Alvöru planetarium og sjónaukar í stjörnuskoðunarstöð á Þingvöllum er bara brilljant. Finnst mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er fín hugmynd, Þinvellir eru jú afskaplega kosmískur staður og gott að koma þangað á stjörnubjörtum vetrarkvöldum.

Hefurðu kíkt á þennan bloggara og hans stjörnuumfjöllun?

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.3.2008 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband