ÍT 2008

Horfði á útsendingu Sjónvarpsins frá Borgarleikhúsinu í gærkvöldi þar sem tónlistarverðlaunin voru afhent. Ég er svo kvefaður af flensu og þjakaður af annarri óværu að ég naut þess ekkert sérstaklega. Þó mátti hafa nokkra skemmtan af þessu flestu.

Felix flottur að vanda, enda var allt frábært hjá honum.

Hugtakið "fjölbreytt tónlist" olli mér nokkru hugarangri. Hvað er þá restin? Fábreytt tónlist? Stundum er notað hugtakið "ýmis tónlist" sem er ekki mjög innhaldslýsandi. Þetta sýnir okkur etv hvað við eigum erfitt með að hólfa niður og flokka hinar ýmsu stíltegundir.

Við höfum eftirtalda flokka: Popp/dægurtónlist, rokk/jaðartónlist, jazz, sígild/samtímatónist og svo ýmis tónlist. Og jú kvikmynda/sjónvarpstónlist. Það góða við þetta er að þetta getur allt skarazt, popp getur verið ýmist, og ýmist verið samtíma, jaðar verið jazz etc. Öfunda ekki þá sem þurfa að raða þessu niður og koma skikki á heila klabbið. Í raun eru bara tvær sortir af tónlist, góð og vond.

Rúnar minn Júlíusson fékk verðskuldaða viðurkenningu. Hann komst í gegnum þetta með húmor, þótt þessar sekúndur sem hann var að rifja upp vísurnar sínar væru erfiðar.

Hins vegar var syrpan sem All Star Bandið spilaði alls ekki nógu góð, sérstaklega var ömurlegt að hlusta á Tasco Tostada, það flotta lag, raddirnar útí á túni. Gera betur næst.

Hjaltalín og Ólöf Arnalds var mitt fólk í gærkvöld. Jú og Einar Scheving, platan hans Cycles er flott, bezta plata ársins, sama hvaða flokk miðað er við. Sigurrós fyrir lengra komna sagði Venni Linn í dómi sínum um Cycles í Mogganum. Hann hefði mátt sleppa þeim samanburði, því Einar Valur rær á allt öðrum og músikalskari miðum.

Ég náði alveg ræðunni hjá Frímann, öfugt við milljarðamæringinn. Hins vegar skildi ég ekki Björgólf þegar hann fór útí þá ráðgjöf í ökónómíu að tónlistarmenn ættu að spila niður krónuna og verðbólguna. Blanco.

Björk tónlistarflytjandi ársins? Hélt hún einhverja tónleika hér heima? Eða er sú viðurkenning ekki bundin við lögsögu Íslands?

Ég er ekki einn af aðdáendum Páls Óskars. Ég dáist að sjálfsögðu að krafti hans og dugnaði, og hann er sjarmerandi og fínn drengur, en tónlist hans höfðar ekki til mín. Diskóið er bara tvívídd, vantar dýpt. Sömuleiðis næ ég ekki Mugison, endurunnir blúsfrasar og taugaveiklunarleg túlkun. Og hvers vegna í ósköpunum syngur maðurinn ekki á móðurmáli sínu? Er hann svona frægur í útlandinu?

Skemmtilegar þessar poppvísur sem voru notaðar í kynningunum, það mætti hugsanlega þróa það konsept meira og betur. Raggi Bjarna var killing í sínu atriði.

Mér fannst Megas bera skarðan hlut frá borði. Sjaldan verið betri en á liðnu ári. Hvers vegna hann fékk ekki viðurkenningu sem textahöfundur ársins á ég aldrei eftir að skilja.

Af hverju voru svona fáir áhorfendur? Soldið pínlegt. Sömuleiðis mjög pínlegt að hlusta á þessar auglýsingar frá tónlistpúnktiiss, vísipúnktiiss etc. Þarna var verið að misnota vettvanginn og útsendinguna. Plís ekki gera þetta aftur. Óviðeigandi með öllu.

Útsendingin var tiltölulega hnökralaus og þetta slapp bara nokkuð vel, en sjóið sem slíkt var svona heimóttarlega íslenzkt. Sem er á vissan hátt notalegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband