Pólverjar á heimleið

 Coat of arms of Poland

Skv frétt á vef BBC þá eru Pólverjar á heimleið, víðs vegar að úr veröldinni. Í Póllandi hefur efnahagur tekið kipp uppá við og laun hafa margfaldast á innan við tveim árum.

Það má því búast við að Pólverjar yfirgefi Ísland í nokkrum stíl á næstunni vegna þessa. 

Við skulum vona að við lendum ekki í því sama og Pólverjar, að þurfa að leita útfyrir landsteinana að vinnu. Þurfa að þola fyrirlitningu, lág laun, lélegan aðbúnað, rasisma og almenna fyrirlitningu eins og Íslendingar hafa boðið Pólverjunum uppá.


Ad hominem

 

ad_hominem3

Bubbi Morthens dettur í þann fúla pytt í þessari deilu að ráðast gegn Bigga persónulega og með móðgunum. Biggi heldur því fram að Bubbi sé samfélagsspegill, túlkandi en ekki gerandi. Bubbi svarar og segir efnislega að Biggi syngi falskt, þess vegna sé ekkert að marka hvað hann segir.

Þessi aðferð kallast "ad hominem" og er lágkúrulegasta form af rökræðu sem finnst. Sandkassaleikur, enda oft notuð af pólitíkusum. Því miður hef ég séð Bubba nota þessa aðferð áður, oftar en einu sinni og tvisvar. Mæli með að hann hætti þessu. Þetta er á afskaplega lágu plani.

 

 


mbl.is Bubbi og Biggi í hár saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dans


Næstum heiður himinn þennann laugardagsmorgun og óvenju kyrrlátt hér við Laugaveginn. Eina sem heyrist er hljómurinn í klukkum Hallgríms sáluga á Skólavörðuholtinu. Sálmaskáldið passar tímann fyrir mig.

Ég verð á dansskónum í kvöld þegar úbartið heldur árshátíð. Það á reyndar eftir að pressa buxur sem einhverra hluta hefur verið eitt af því sem ég hef aldrei náð tökum á, verð að finna einhverja leið til að fá einhvern annan til að sjá um það.

Annað sem ég hef aldrei lært er að dansa. Ég hef hins vegar varið drjúgum tíma í að horfa annað fólk dansa og það er oft anzi skemmtilegt. Maður getur lesið ýmislegt í persónugerð fólks eftir því hvernig það dansar. Það verður ekki auðveldlega logið í dansi. Mamma kenndi mér pons í gömlu dönsunum sem hún hafði yndi af, vals, enskan vals, ræl, skóttís, marzúrka, polka etc, en þau spor eru nú öll týnd. Ég verð að treysta á partnerinn í kvöld sem ég veit af reynzlu að hefur fínan skilning og menntun í dansi.

Mér áskotnuðust þessir líka flottu krókódíladansskór á dögunum sem ég ætla að bursta og fægja þangað til að hægt verður á spegla sig í þeim. Þeir verða líka að vera fínir því þegar fólk furðar sig á þessum flækjufæti á gólfinu þá getur það alla vega dáðst að skónum.

Nú er HP búinn að slá hálftólf signalið og kominn tími til að plotta eitthvað plan með brækurnar.


7-13?

"sjond og fáðér kortara, úa"

Stuðmenn


mbl.is Kynmök taki sjö til þrettán mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur frá Klapptúni

Ég mun fara verði mér boðið á tónleika EC, en miða kaupi ég trauðla enda að seljast upp skv þessari frétt. Þetta verða vonandi skemmtilegir tónleikar fyrir aðdáendur hans, kveikjarar á lofti í ballöðunum, sungið með í slögurunum, stappað niður fótunum, ruggað sér í lendunum og snúið sér í hring þegar blúslíkið dunar.

Það var mikið hlustað á Cream og John Mayall's Bluesbreakers fyrir austan í den, en þeirri hlustun lauk þegar fyrsta plata Jimi Hendrix Experience fór á fóninn. Aftur heyrðist í EC þegar önnur sólóplatan kom út og þá hafði tappinn heldur betur breytt um stíl. Nú voru ekki lengur endurunnir gamlir frasar frá Albert King á boðstólum, heldur klisjur frá JJ Cale og ryþmanum stolið frá Jamaica þar Bob Marley var æðsti prestur. Þetta var skemmtileg og grúví súpa og skásta sólóplata EC til þessa, 461 Ocean Boulevard. Hann var með rosalega fína hljómsveit með sér, sennilega þá beztu sem hann hefur haft, þar sem bassaleikarinn Carl Radle var þungamiðjan. Sá drengur kunni þá eðlu kúnst að spila færri nótur en fleiri. Betur en aðrir í rokkinu á þeim tíma.

Allar plötur eftir það hafa verið frekar óspennandi sull, sjálfsvorkun og hálfgerður aumingjagangur. Eina undantekningin má segja að sé platan EC Unplugged, þar syngur hann betur en fyrr og síðar, þar vottar fyrir göfgi í sálinni. EC hefur mestan part haldið sig í notalegum skugganum af JJ Cale svona hugmyndalega séð, en JJ er frumlegur kall frá Oklahama sem getur fágað litla gimsteina nánast úr engu. Nýjasta plata EC er einmitt samstarfsverkefni með JJ, The Road To Escondido. Sá diskur fékk reyndar Grammy verðlaun í einhverri undirdeildinni.

Clapton Is God var algengt graffítí meir að segja þegar ég fór fyrst til Englands 1978. Virkaði eins og óp frá dogmatískum sértrúarhópi. Clapton var soldið töff, sérstaklega þegar hann spilaði með John Mayall. Fór útí lysergíð endaleysu með Cream og missti plottið gersamlega. Að halda því fram að hann sé bezti gítarleikari heims er bara broslegt. Það má vera að hann hafi haft mikil áhrif og orðið þess valdandi að menn fóru að stunda gítarleik, en orð eins og snillingur hvað þá guð, gengisfalla hraðar en íslenzk hlutabréf þegar þau eru tengd honum.


mbl.is Miðar á Clapton að klárast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eymý frá Vínhúsum

Rokk er ekki flókið fyrirbæri tónlistarlega séð, þrír, fjórir dúrhljómar og takturinn 4/4. Yrkisefnið í textunum er sex. Langoftast löngun í sex.

Það þarf anzi frumlegt fólk til að búa til eitthvað úr þessum simpla efnivið til að segja manni eitthvað sem kemur á óvart. Það er búið að margþvæla þessu einfalda stefi með þeim hætti að maður er hættur að hlusta eftir textanum, slær taktinn með tánum einsog Pavlov hundur. Pavlov rokkhundur.

Einstöku sinnum gerist þó undrið, maður heyrir inní þessu viðtekna nýjan tón, nýja tilfinningu sem túlkar eitthvað sem maður vissi, en hafði ekki fundið áður.

Amy Winehouse kom til mín í umslagi frá Bretlandi og ég setti hana í bunkann "Hlusta Seinna". Sem er í raun síðasta stoppistöð fyrir ruslakörfuna. Þetta var "sampler", sýnishorn af plötunni Frank. Myndin á umslaginu bjargaði samplernum frá Sorpu. Diskurinn fór í spilarann og hefur verið nálægt honum síðan.

Amy syngur eins og Sarah Vaughan. Ekki eins að sjálfsögðu, hún er ekki ljósrit, en hún hefur drukkið úr sömu lind og Sarah, Billie, Nina og Edith. Amy er mildasti geislinn og sárasti skugginn eins og hinar stelpurnar þegar hún syngur.

Ekki nóg með það, tvítug stúlka á ekki að semja svona lög og svona texta. Hún er of ung. Svona semur enginn nema hann hafi lent í miklu ástarævintýri og mikilli hjartasorg. Rehab er lag sem er vitnað í þegar menn nánast hlakka yfir óförum hennar. En textinn er um afneitun og beiðni um hjálp. Það virðist hafa farið fram hjá flestum.

Það er dapurlegt að sjá hvernig fyrir henni er komið núna, hræðilegt að sjá og lesa það sem fjölmiðlaskríllinn ber á borð fyrir okkur um harmleik hennar. Ég veit ekki hvaða demónar eru spila í þessari konu, en vona svo heitt og innilega að hún nái taumhaldi á þeim og geti ort, samið og sungið um langa hríð því hún er sá tónlistarmaður sem ber af eins og gull af eir á okkar tímum.


Coen bræður og græðgin

Nýbúinn að sjá No Country For Old Men. Gæti skrifað mikið um myndina en sleppi því. Þegar ég fór að hugsa um þær myndir sem ég hef séð eftir þá bræður þá er eitt stef sem einkennir þær flestar ef ekki allar. Ég hef hvergi séð minnst á þetta og ætla því að koma með þá kenningu að myndir Coen bræðra snúast um græðgi. Um peninga og þá óhamingju sem af þeim getur hlotizt.

NCFOM er um ógæfu manns sem tekur tösku fulla af peningum án nokkurar umhugsunar. Það veldur honum drjúgum búksorgum sem og fjölda annarra. Tilbrigði við þetta stef er að finna í Fargo, Big Lebowski, Oh Brother Where Art Thou, The Man Who Wasn't There og fleiri myndum sem ég hef séð eftir þá bræður, en ég hef reyndar ekki séð þær allar.

Fégirndin er rót alls þess sem illt er skrifaði Páll postuli. Græðgin er ein af höfuðsyndunum sjö og verður æ meira áberandi eftir því sem tímarnir líða. Ekki satt?

Meir um þetta síðar


Þessi frétt er rugl


Það er með ólíkindum að þessi frétt hafi verið birt í Morgunblaðinu því hún er tómt rugl. Reglan um hlaupár í hinu Gregoríska tímatali er afar einföld og kennd í barnaskóla.

Aldamótaár er ekki hlaupár nema talan 400 gangi uppí ártalinu. Tam voru árin 1600 og 2000 hlaupár. Næstu aldamótahlaupár verða 2400 og 2800.


mbl.is Hver á hlaupársdaginn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandið hans Bubba

Einhverra hluta vegna hef ég séð alla þættina “Bandið hans Bubba”. Ekki vegna þess að ég ætlaði að fylgjast með þessu, það gerðist fyrir tilviljun. Hending ein hefur ráðið að ég hef setið við sjónvarpið og lent á stöð 2 þegar þessir þættir hafa verið sendir út.

Ég þekki aðeins inná svona hæfileikakeppni eftir að hafa séð nokkra þætti af Idol, Xfactor, Supernova etc., en BHB er að ég held nokkuð frábrugðið. Það er vegna þess að persóna Ásbjarnar Kristinssonar Morthens er burðarásinn í öllu verkinu, styttingin á nafni hans er í eignarfalli í heiti þáttarins.

Hann situr í þættinum sjálfur eins og keisari á leikum í Colosseum sem ræður örlögum gladiatora. Orð hans er hinn endanlegi dómur.
Bubbi er ekki bara poppstjarna, hann er poppgoð okkar íslendinga. Og honum leiðist það ekki. Hann geislar af sjálfsöryggi, hann hefur einhverja innri uppljóman og orku sem er ótrúleg, ágeng og athygliskrefjandi.

Stundum pirrandi, stundum finnst manni talandi hans nokkrum ljósárum á undan hugsun hans, maður nemur orðin en ekki alltaf þá hugsun sem býr að baki. Kannski er ég bara ekki nógu fljótur að hugsa til að fylgja honum. Fatta ekki alla tangentana sem flæði hans tekur.

Hann er að öllum líkindum bezti söngvari, lagasmiður og trúbador sem við eigum. Og eins og með pólitíkusana, þá fáum við þá trúbadora sem við eigum skilið. Það er áhugavert að heyra álit hans á einstaka frammistöðu í þættinum, innsæið er á stundum brilljant, beint að kjarnanum, en oft skil ég hreinlega ekki hvað hann er að fara. Stundum er hann beinlínis brútal og á öðrum stundum skýtur hann yfir markið í oflofi. En svo er margt sinnið sem skinnið, það sem einum finnst gott og gilt finnst öðrum helzt til villt.

Það er mjög virðingarvert að Bubbi geri þá kröfu að öll lögin skuli flutt við íslenzkan texta, það færir tónlistina nær okkur og gerir okkur betur kleift að meta frammistöðu keppenda. Það er fín hljómsveit sem sér um undirleik og það er ekkert feik í gangi í þeim efnum, eins og því miður í annarri keppni sem er nýafstaðin í Sjónvarpi allra lanzmanna. Að því leyti er BHB þátturinn klassa ofar.

Hins vegar er kepninni lokið fyrir mér, henni lauk í þriðja þætti eftir að ég heyrði í þeim sem nú keppa til úrslita. Þetta er ekki spennandi lengur, hópurinn er einfaldlega ekki nógu góður til að maður nenni að fylgjast með þessu áfram.

Þeas ég vona að ég villist ekki inná þáttinn aftur næsta föstudagskvöld… ég gæti límst við til að ráða í hugsanarokið í keisaranum.


Bing!

Nú er verið að kveðja Binga í Höfða. Þarna eru sjálfsagt "vinnufélagar" hans í borgarstjórn, en hver ætli borgi brúsann? , búsið og húsið?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband