Þursaflokkurinn

 

Þursar

Mikið er gaman að hlusta á Hinn Íslenzka Þursaflokk. Nýkominn kassi með 5 diskum, ein 18 lög sem aldrei hafa heyrzt áður.

Þursarnir sömdu og frömdu frábæra tónlist á sínum skamma tíma, tónlist byggða á íslenzkum þjóðlögum og rokki.

Maður ber þetta ósjálfrátt saman við það skásta sem er verið að gera í dag, nútímanum nokkuð í óhag. Hefur Mugison tam samið eitt gott lag sem mun lifa eftir rúm 20 ár? Efaða.

Pétur Ben er hins vegar nokkuð góður, sömuleiðis Aniima, Lay Low og fleiri, en mér finnst eins og það vanti einhvern brodd í mannskapinn. Þennan brodd hafði Þursaflokkurinn og það er ótrúlegt að heyra ófullgerðu upptökurnar, þetta hefði orðið meiriháttar plata.

Hlakka mikið til tónleikanna í Höllinni.

 


Tíðendaleysi

Ehemm, tíðindalaust hefur verið á Laugaveginum undanfarna mánuði. Í raun hefur verið tíðindalaust á Íslandi frá því 10. maí 1940 fyrir utan stöku eldgos og aðrar náttúruhamfarir, en það er annað mál.

10. maí 1940


Give Peace A Chance

Ég sá þegar verið var að prófa friðarljós Lennons í Viðey í gærkvöld. Þetta verður greinilega nokkuð magnað. Bláleitur geisli útí geim. Ekki veitir af friðarboðskap á þessari skálmöld, en ekki veit ég hversu mikið þetta magnaða ljós á eftir að stuðla að friði meðal stríðandi þjóða. Mér er það mjög til efs að það muni tam hafa nokkur áhrif á kallinn í hvíta húsinu sem fer með pataldur á hendur fátæku fólki í asíá með frelsisorð á vörum en græðgina í hjartanu.

Friðarljósið verður sennilega ekkert meir en túrista attraksjón þegar fram líða stundir, fallegt sjónarspil sem mun verða eitt af táknum Reyjavíkur. Sem væri gott. Bezt væri að það tæki við af reðurtákninu á Skólvavörðuholtinu og bólunni á Öskjuhlíð, en það mun ekki skipta neinu máli fyrir frið í henni versu, ekki frekar en Perlan og Hallgrímskirkja.

Það er ekki útilokað að nokkra skemmtan megi hafa af því að fylgjast með beinni útsendingu Sjónvarpsins frá athöfninni þegar kveikt verður á ljósinu. Reykjavíkuborg er búin að bjóða nokkur hundruð manns í partý vegna þessa, fyrst útí Viðey og svo í Listasafni Reykjavíkur. Það verður boðið uppá einhverja brjóstbirtu í Viðey, síðan hlaðborð með rauðu og hvítu í Listasafninu. Þarna verður rjóminn af íslenzku menningarsnobbi í ókeypis partýi einn ganginn enn (ekki ókeypis per se, við útsvarsgreiðendur borgum brúsann), ekki spillir fyrir að Ringo og Paul ku mæta.

Hitt er svo annað mál hvað Jóni heitnum Lennon myndi finnast um þetta partý. Því miður er ekki hægt að spyrja hann af augljósum ástæðum, en ef maður miðar aðeins við móralinn í verkum hans þá ímynda ég mér að hann myndi sleppa menningarsnobbinu, safaríku steikunum og eðalvínum. Bjóða þess í stað öllum sem vilja koma og hugleiða frið í mínútu eða svo.

Ég ætla nú að gerast svo djarfur að koma einni hugmynd hér á framfæri við Reykjavíkurborg, og hún er sú að gamli góði Villi leiði partýið í söng þegar kveikt hefur verið á ljósinu, svona til að auka enn frekar á unað stundarinnar fyrir gesti borgarinnar.

Lagalistinn ætti þá að vera þessi:

Í Viðey:

1. Everybody's Got Something to Hide Except Me and My Monkey

2. Revolution 9

3. Crippled Inside

Í Listasafni Reykjavíkur:

1. Power To The People

2. Woman Is The Nigger Of The World

3. Money

 


bítlar á borg

Nú berast þær fréttir að eitt frægasta ryþmapar rokksögunnar muni dvelja á Hótel Borg í nokkra daga í upphafi októbermánaðar. Sem er gleðifregn. Vonandi verður gott veður og þeir Ringo og Paul látnir í friði. Sem ég býst alveg við enda eru þetta pensjónistar. Maður á að vera almennilegur við eldri borgara og sýna þeim tillitssemi.


enskísla?

Ég er ekki einn þeirra sem brosi og fer að tala ensku þegar ég er "afgreiddur" í Sandholtbakaríi af fólki sem skilur ekki íslenzk orð eins og brauð og snúður. Ég tala mína íslenzku og hætti ekki fyrr en ég fæ það sem ég bið um. Án ókurteisi og frekju, en líka án einhverrar meðaumkvunnar með þessum krökkum sem ekki hafa nennt að læra einföldustu orð og hugtök sem notuð eru í verzlun með brauð.

Fyrir mörgum árum vann ég sem þjónn á kaffibar við Lago Lugano. Staurblankur námsmaður og mállaus. Fékk vinnu í uppvaski til að byrja með en var settur í afgreiðslu þegar eigandinn sagði mér að nú kynni ég nóg í kaffiítölsku. Þar lærði ég svo undrafljótt að tala þetta fallega mál, því viðskiptavinirnir gáfu ekkert eftir og hættu ekki fyrr en ég skildi þá, á ítölsku.

Það er er ef til vill fulldramadískt að segja að tungumálið sé sál þjóðarinnar, og þó...

Ég þekki nokkra útlendinga sem hafa verið hér áratugum saman án þess að ná nokkru valdi á íslenzku. Það er sorglegt að heyra þetta fólk tala, svona svipað og þegar maður heyrði viðtöl við Magnús Magnússon, þann fræga fjölmiðlakappa sem talaði furðulegan blending af ensku og íslenzku, einhvers konar enskíslu. Er það málið sem við viljum?


Menningarnótt?

Það væri meira réttnefni að kalla þetta fyrirbæri Menningardag, eða Menningarkvöld. Það sem gerist um nóttina erftir flugeldasýninguna er bara taumlaust fyllerí, slagsmál, rugl og ógæfa.

Meir að segja áður en fylleríið er yfirstaðið í miðbænum, þá er flokkur manna með tæki og vélar kominn af stað til að hreinsa upp ógeðið á götunum.

Það væri nú ráð að skilja það eftir næst í einn eða tvo daga svo menn geti séð hvers konar ómenning þrífst á Menningarnótt í Reykjavík.


mbl.is Síðustu gestir Menningarnætur á leið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar og tónlist

Kaupþing í kvöld í Laugardalnum
Landsbankinn annað kvöld á Klambratúni

Væri ekki ráð að lækka vextina í staðinn fyrir "ókeypis" tónleika?


mbl.is Umferð gengur vel úr Laugardalnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

elvis

Fyrir akkúrat 30 árum var ég staddur í Kaupmannahöfn. Þá frétti ég dauða Elvisar af fréttaskilti á Ráðhústorginu 17. ágúst 1977. Þessi frétt hafði undarleg áhrif á mig, allann þann dag hljómaði gospellagið His Hand In Mine í hausnum á mér. Eins og EP túlkaði sálminn ásamt The Jordanaires.

Núna eru alls kyns páfar eins og Egill Helgason að gera lítið úr Elvis, gera gys að uppruna hans og ömurlegum dauðdaga. Ég las í gær lærða, en furðulega grein í The Guardian, þar sem er Elvis er borinn saman við Lennon og McCartney, Elvis mjög í óhag.

Þegar That´s Allright Mama hljómaði í útvarpi í Memphis 6. júlí 1954 varð allt vitlaust. Lagið var spilað endalaust og krakkarnir trylltust. Þeir héldu að Elvis væri svartur.

Í kjölfarið komu menn eins og Johnny Cash, Little Richard, Jerry Lee Lewis, Chuck Berry, Roy Orbison, Fats Domino et al.

Elvis opnaði brunninn sem ennþá er verið að ausa úr. Hann var frumkvöðullinn, brautryðjandinn ef menn vilja vera hátíðlegir. Svo kom í ljós að hann var ekki bara fallegur, heldur hættulega sætur.

Saga hans er tragísk það þarf ekki að rekja hana hér.

Í dag ætla ég að hlusta á Elvis syngja Gospel, því það söng hann bezt af öllu.

"Before Elvis there was nothing"
John Lennon


Jón Ásgeir Sigurðsson

Sú sorgarfregn var að berast að Jón Ásgeir væri allur. Reyndar vissi ég að hann væri dauðvona, en það er alltaf harmur þegar góður vinur og samstarfsfélagi fellur frá.

Við Jón áttum skrifborð andspænis hvor öðrum hjá Útvarpinu, hann á Rás 1, ég á Rás 2. Skemmtilegri félaga vart hægt að hugsa sér. Hugmyndaríkur, menntaður, óragur og metnaðarfullur. Hann talaði nokkur tungumál reiprennandi og var að mennta sig fram á hinzta dag. Tók MBA prófið eftir sextugt og það var engann bilbug á honum að finna. Metnaður hans fyrir Útvarpið var meiri en hjá flestum ef ekki öllum öðrum. Hann var kominn í útvarpsráð og þar var loks valinn réttur maður í það starf.

Hann var stöðugur fleinn í holdi ráðamanna Útvarpsins því hann þoldi ekki pólitísku íhlutunina sem litaði alla ákvarðanatöku og mannaráðningar. Jón Ásgeir lá ekki á skoðunum sínum og lét ekki kúga sig eins og svo margir aðrir, þvert á móti skrifaði hann greinar, tók til máls alls staðar þar sem hann gat til að andmæla fúskinu og pólitíkinni. Yfirsýn hans, menntun og vald á íslenzku var frábær, við þetta bættist líka stríðni og áræði sem hafði neikvæð áhrif á blóðþrýstinginn hjá þeim sem réðu.

Hans verður saknað.


Sumarfrí

Sumarfrí er dásamlegt. Maður getur gert flest það sem maður hefur ætlað að gera, en ekki haft tíma til. Semja nýtt lag, læra á forrit, fara í langar gönguferðir, fara til útlanda, taka til í geymslunni, hugleiða lífið og tilveruna, meiri tíma með fólki sem manni þykir verulega vænt um, lesa, kaupa nýjan gítar, fara á hestbak, hlusta á tónlist sem tengist ekki vinnunni, dreyma dagdrauma,.... og blogga...

Ég fékk það verkefni um daginn að syngja og spila á tónleikum Hinsegin daga á Arnarhóli, með því skemmtilegra sem ég hef gert í sumar. Ég var þarna í fínum hóp sem Tommi Tomm hóaði saman af þessu tilefni, Gösli, Gummi P, alsherjargoðinn Hilmar og svo við Tómas. Við spiluðum tónlist úr kvikmyndinni Brokeback Mountain, viðeigandi í þessum samnhengi.

Búinn að fara oft í sund í sumar, frábær íþrótt og góð heilsurækt. Er núna afskaplega þakklátur fyrir þá góðu sundkennslu sem ég fékk fyrir austan sem strákur hjá Þorvaldi Jóhannssyni og Jökli á Eiðum. Þetta er soldil enduruppgötvun hjá mér og nú verður það sund og aftur sund.

Afskaplega er lítið í fréttum hér heima, notaleg gúrkutíð, en ekki öfunda ég afleysingaliðið á fjölmiðlunum sem þarf að fylla fréttatíma og blaðsíður af áhugaverðu efni. Eflaust góður skóli fyrir hugmyndaríkt fólk, en mikil ósköp er mikið af þessu fréttaefni klént og illa fram sett. Nú les ég fréttir nánast eingöngu á brezkum miðlum, BBC, Guardian etc. Þar kunna menn nú heldur betur til verka. Aðalfrétt Moggans í dag er um vigtun á fiski!

Ég fylgist með enska boltanum eins og ég hef gert frá unga aldri, og nú er hann byrjaður að rúlla mér og öðrum til skemmtunar. Ég læt það reyndar fara nokkuð í pirrurnar á mér þegar West Ham er kallað íslendingalið. Íslendingalið? þetta er alþjóðlegt Lundúnalið sem nokkrir ríkir kallar með íslenzka kennitölu eiga meirihluta í, rúmlega 99.999% íslendinga eiga ekki neitt í þessu liði, sem ég hef þó alltaf haft nokkrar taugar til því þeir spila oft svo skemmtilegan sóknarbolta.

Mikið er sólin búin að skína hér í Reykjavík. Ég er svo heppinn að vera með verönd sem snýr í suður, sól frá morgni til kvölds. Maður drekkur morgunkaffið úti, les fréttir á tölvunni. Tekur síðdegisteið og borðar kvöldmat úti undir berum himni dag eftir dag.

Þó að sé farið dimma og komið rökkur um miðnætti þá hef ég ekki enn lagst í stjörnugláp. Hefði átt að vaka aðfaranótt 13. ágúst því var loftsteinahríð, en þá hefði maður þurft að fara langt útfyrir bæinn vegna heilhveitis ljósmengunarinnar. Nennti ekki og svaf á mínu græna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband