Sunnudagur, 25. febrúar 2007
Blástjarnan
Í stjörnumerkinu Lyra er skærust stjarna sem ber heitið Vega. Akkúrat núna þegar þetta er skrifað skín hún svo fagurlega á suðurhimninum, ca 40´fyrir ofan sjóndeildarhring í hásuðri. Á íslenzku heitir hún Blástjarna. Hún gleður auga gamals sjómanns sem lærði á stjörnuhimininn á löngum siglingum með Íslandsströndum veturinn 1972 - 3.
Blástjarnan er fögur, hún er ein skærasta stjarna festingarinnar og fer aldrei undir sjóndeildarhring hér á norðurslóð. Hún myndar ásamt Altair í Erninum og Deneb í Svaninum þríhyrning sem margir þekkja og er áberandi á vornóttum.
Blástjarnan er stjarna músíkanta því hún er Alpha Lyrae, skærust stjarna í Hörpunni. Hún er líka ein af örfáum sem eiga sér íslenzkt nafn. Það er furðulegt að ekki skuli hafa varðveizt nöfn stjarnanna á norrænum málum eins mikið og forfeður okkar navigeruðu og þurftu þar af leiðandi að kunna vel á festinguna.
Ekki langt frá Vegu er Arcturus, hann er vestar og aðeins lægra á himninum. Skær og fögur stjarna sem gleður líka.
Ég er óttalegur stjörnuglápari og get gleymt mér tímunum saman vegna fegurðarinnar. Synd að við borgarbúar skulum hafa fórnað þeirri fegurð með ljósmengun. En það má samt sjá þær skærustu og gleðjast yfir þeim. Svo má alltaf bregða sér útfyrir bæinn, finna sér stað þar sem hægt er að leggjast á bakið og týna sér í dýrð himinsins. Ekki verra að hafa tónlist við hæfi í eyrunum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. febrúar 2007
Fríkirkjuvegur 11
Nú verður Fríkirkjuvegur 11 að safni um fyrsta nútíma kapitalistann á Íslandi. Vissulega merkismaður Thor Jensen, nobilitet samfara kúltúr og metnaði. Og sýndarmennsku. Fríkirkjuvegur 11 kostaði hið sama og allar tekjur Reykjavíkurbæjar á einu ári uppúr aldamótum 1900.
En hvar er minnisvarðinn um fólkið sem Thor Jensen arðrændi til að skapa þennan auð? Héðinn Valdimarsson frá hné og uppúr á Hringbraut? Hvar er minnisvarðinn um sjómennina sem drukknuðu? Hvar er minnisvarðinn um sjómennina sem þurftu að berjast fyrir vökulögunum? Hvar er safnið um konurnar og börnin sem þræluðu í kulda, bleytu og vosbúð fyrir nánös í kaup?
Thor Jensen gaf súpu þegar spænska veikin geysaði 1918 og þótti mörgum öðlingsverk. Thor vissi hins vegar að ef mannskapurinn hríðfélli yrði enginn til að vinna og viðhalda arðseminni.
Matti Jó smíðaði orð um menn eins og Thor; athafnaskáld. Vont orð því skáld byggja ekki auðlegð sína á því að kúga fólk. Thor Jensen skapaði vinnu og tækifæri og fyrir það er hans minnst fyrst og fremst. Hann var ekki skáld, hann var kapítalisti og nýtti þau tækifæri sem gáfust.
Það verður að segjast strax og nú að við íslendingar hefðum getað verið miklu óheppnari með okkar fyrsta nútímakapitalista en Thor. Eftir því sem maður hefur lesið og séð, þá var þetta toppmaður, en barn síns tíma.
Það er allt í lagi að afkomandi Thors skuli reisa honum safn með miklum tilkostnaði, en hvað verður á þessu safni? Verða launaseðlar Reykvískra verka og sjómanna til sýnis? Verða myndir af líkum sjómannanna sem fórust á togurunum? Sennilega ekki, og þó...
Verst er að þessi verkalýður og sjómenn eiga sér ekkert safn og saga þeirra í atvinnulífinu er sífellt að mást. Nú er tækifæri fyrir ASÍ og samtök launafólks að koma upp safni sem sýnir hverju íslenzk alþýða fórnaði fyrir þann auð sem skapaðist og veittist á fáar hendur.
Það metnaðar og skeytingarleysi svíður okkur afkomendum fátæks verkafólks í Reykjavík hvað mest.
Það safn þarf ekki að kosta milljarð og vera hýst í glæsihöll.
Dægurmál | Breytt 16.3.2007 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Bretarnir fara
Nú berast þær fréttir að Bretar ætli að draga herlið sitt frá Írak í áföngum. Þetta hlýtur að vera áfall fyrir Bandaríkjaforseta, sem ætlar að auka herlið í landinu. Hvað ætli þeir segi við þessu mennirnir sem komu okkur íslendingum á listi yfir hinar staðföstu þjóðir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Venus og máninn
Góutunglið er nýkviknað og nú má sjá fallega sjón á vesturhimninum við sólsetur, Venus einsog demantur rétt hjá nýja tunglinu, afskaplega fallegt.
Það er hins vegar það helzt að frétta af mánanum að 3. marz nk verður almyrkvi á tungli. Ég bið allar góðar vættir að hafa heiðskýrt þá nóttina.
Ég hef einu sinni séð almyrkva á tungli og það er ógleymanleg sjón.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 18. febrúar 2007
Evrópusýn
Hvað getur maður sagt? Eiki bleiki fer til Helskinki og syngur í Eurovision, 21 ári eftir að hann fór fyrst til Bergen með Gleðibankann.
Það eru auðvitað allir búnir að gleyma því en Eurovision er keppni höfunda ekki söngvara. Eiríkur Hauksson fékk tam verðlaun í gærkvöld ekki höfundar lags og ljóðs, sem sýnir að Sjónvarpið er ekki að fatta þessa keppni.
Þannig veltist nú veröldin, það eru túlkendur sem sigra heiminn, ekki skapendur.
Mikið var í þetta lagt af hálfu Sjónvarpsins og vonandi hafði fólk einhverja skemmtan af þessu öllu saman. Ég fyrir mitt leyti fylgdist með þessu með öðru eyra og auga og hefði kosið Heiðu og dr. Gunna ef ég hefði nennt. Sem sýnir að ég hef ekkert vit á þessu því þeirra lag var ekki á top 3 listanum.
Það hefur einhver snillingur hjá EBU sett þá reglu í árdaga að hvert lag mætti aðeins vara í 3 mínútur. Hvílík sýn sem hefur bjargað mörgum frá klukkutímum af leiðindum þegar allt er saman lagt í þau ár sem þessi keppni hefur staðið.
Rokkið í gamla daga var ekki að eyða tíma í óþarfa, ekki heldur pönkið. Tímanum var ekki sóað í tilgangslausar endurtekningar og módúlasjónir. Menn komu sér beint að kjarna málsins og kláruðu dæmið á uþb 2´11´´
Til að bjarga Eurovision keppninni úr þeim pytti meðalmennsku og ófrumleika sem hún hefur alltaf dvalið, legg ég til eftirfarandi stífar reglur fyrir næstu keppni til að kippa þessu uppá yfirborðið:
1. Styttur tími fyrir hvert lag, 2 mínútur og 11 sekúndur max
2. Engir dansarar
3. Öll tónlist verði flutt "live"
4. Aðeins einlitir búningar
5. Aðeins notaðar 2 kamerur og 2 kastarar
6. Aðeins sungið á Esperanto
Þetta eru aðeins nokkrar hugmyndir skrifaðar beint á blað, en ein afskaplega snjöll lausn væri sú að fá Hilmar Örn Hilmarsson til að semja Dogma reglur fyrir keppnina í samvinnu við Lars Von Trier.
Adieu mes amies,
raggissimo
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Ung vinstri græn um kynlíf og nekt
Ég hnaut um klausu sem birtist í fréttatilkynningu Ung vinstri grænna vegna fyrirhugaðrar klámráðstefnu á Íslandi;
"Ung vinstri-græn eru ekki andvíg nekt né kynlífi sem hvoru tveggja er náttúrulegir og eðlilegir hlutir"
Mér hafði satt að segja ekki dottið í hug að það gæti verið hugsanlegt að UVG væru á móti nekt. Það eru bara teprulegar gamlar kerlingar í Sjálfstæðisflokknum sem eru á móti nekt. Þær hafa þó með sér félagasskap sem kallast Hvöt, þannig að þeim er etv ekki alls varnað.
Yfirlýsing UVG um kynlífið markar hins vegar alger tímamót. Þetta er í fyrsta skipti í heiminum svo ég viti til að stjórnmálahreyfing hafi fundið sig knúna til að gefa út yfirlýsingu í þessa veru.
Hvers vegna þurfa pólitísk samtök eins og UVG að koma með þessa yfirlýsingu? Var einhver að halda einhverju fram um UVG sem ég hef misst af?
Rökstuðningurinn er ekki síður athyglisverður. Hafa einhverjir nema dementeruð öfgarelegíus fífl haldið því fram að kynlíf og nekt sé ónáttúrulegt og óeðlilegt?
Það er hins vegar lokaorðið sem veldur mér nokkrum ugg um hugmyndafræðilegt heilbrigði UVG. Það er orðið "hlutir".
Er kynlíf virkilega orðið objektívt? Nekt? Svör óskast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Árni Johnsen klikkar ekki
Sá Árna Johnsen í einhverri auglýsingu með Silvíu Nótt í gærkvöld. Þau voru á Austurvelli og hann skyggði á musteri hins íslenzka þingræðis.
Heyrði hann segja í fréttum að Bakkafjöruhöfn væri úrræði númer tvö í samgöngumálum Eyjamanna, jarðgöng væru númer eitt tvö og þrjú.
"Viss tæknileg mistök" eina ferðina enn.
Það er hins vegar staðreynd að sú setning er einhver bezta sjálfslýsing seinni tíma, það er sama hvað Árni Johnsen tekur að sér, söng, gítarspil, myndhögg, sagnagerð, byggingar, gólfdúka, óðalssteina, alltaf verða honum á viss tæknileg mistök.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Meiriháttar frétt!
Heyrði endurtekningu á Kastljósinu áðan. Þar voru sögð þau tíðindi að hjartasjúkdómum hefði fækkað í Danmörku.
Eins og flestir vita eru ýmsar pínur og sorgir sem geta lagst á þennan bústað tilfinninganna og þess vegna dásamlegt að danir skuli vera lausir við nokkrar þeirra. Væntanlega verður fjallað ítarlega um málið á næstunni í Spottinu...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
The Indie Beatles
Það er liðin sú tíð að það þótti fréttnæmt að skrifað væri um íslenzka tónlistarmenn í útlenzkum fagritum. Hér áður fyrr mátti ekki birtast nafn íslenzks tónlistarmanns í héraðsfréttablaði neðanjarðarmanna í Lundúnum án þess að daginn eftir birtist langhundur um málið aftarlega í blaði allra landsmanna með tilvísun á forsíðu.
Nú eru tímarnir breyttir.
Ég keypti mér á dögunum brezkt tímarit sem heitir Mojo, þykk lesning með ítarlegri umfjöllun um allt það bjartasta, smartasta og flottasta sem er að gerast í poppinu í dag.
Þar rakst ég tam á umfjöllun um Jóhann Jóhannsson, hvers tónlist var lýst sem "glacial classical bleakness"... ehemm.. ætla mér ekki þá dul að reyna umorða þessa snilld á móðurmálið, það yrði bara klúður... "sígild jöklaauðn"?!
Þarna í tímaritinu var líka sagt frá tónleikum The Sugarcubes í Laugardaghöllinni, sem voru sagðir "The Indie Beatles". Þá var mér nokkuð dillað. Ekki það að ég viti ekki að Sykurmolarnir eru mikils virði fyrir þá sem fíluðu þá sem mest þegar þeir voru hvað frjóastir, heldur vegna einkunarinnar.
Það er vegna þess að The Beatles, The Beatles frá Liverpool eru mér töluvert mikils virði. Ég ólst upp við The Beatles og hef síðan lítið sloppið út fyrir jarðarberjaakurinn, eða eigum við að segja forsæluna í garði bleksprautunnar. Mun þaðan koma til með að dæma nýtt sem gamalt í musicam.
Eftir ég las krítíkina á "The Indie Beatles" í Mojo, datt mér ekki annað í hug en að lærðir poppsérfræðingar lýðveldisins myndu gera málinu ítarleg skil í öllum helztu fjölmiðlum; þeas þegar íslenzkri hljómsveit er líkt við Bítlana þá hlyti það að þykja meiriháttar tíðindi. En ekki orð, ekki múkk.
Svona hefur nú heimurinn verið sigraður. Heimsyfirráðin þykja ekkert merkileg, loksins þegar þeim hefur verið náð.
Ég ólst upp við bítlana og það er mín músík, ég veit líka að sú tónlist sem maður elst upp við fylgir manni alltaf. En ég hef haft vit á því að leiðast ekki útí deilur við mér yngra fólk sem fríkaði út á pönki, né heldur mér eldri mannskap sem hefur haldið yfir mér langar tölur um yfirburði jazzins. Maður kinkar bara kolli og fer svo heim og hlustar á hvaðeina sem maður er hrifinn af hverju sinni. Ég hlusta á, með sólkónginn og allan hans mannskap frá lifrarpolli uppí hillu, oní pappakössum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. febrúar 2007
úpss
vantaði slóð fyrir skýrsluna sem ég sagði frá hér að neðan,.. er ekki alveg búinn að læra á þetta snið
http://news.bbc.co.uk/nol/shared/bsp/hi/pdfs/13_02_07_nn_unicef.pdf
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)